Mynd: Tico Times
Mynd: Tico Times

Alþjóðaheilbrigðistofnunin spáir því að zika veiran gæti sýkt allt að fjórar milljónir manna í Ameríku árið 2016.

Þeir sem smitast af zika veirunni sýna aðeins einkenni í um 20% tilfella og eru helstu einkenni á hiti, höfuðverkur, liðverkir, útbrot og augnslímhúðarbólga. Eins og Hvatinn greindi frá fyrr í vikunni, telja sérfræðingar einnig að tengsl gætu verið á milli veirunnar og þess að börn fæðist með dverghöfuð, það hefur þó ekki verið staðfest.

Faraldurinn veldur eðlilega áhyggjum og hafa þær einkum beinst að þunguðum konum auk þess sem spurningar hafa vaknað um öryggi þeirra sem ætla á Ólympíuleikana sem haldnir verða í Brasilíu í ágúst. Að því er kemur fram á vefsíðu BBC hefur Alþjóðlega Ólympíunefndin gefið út að verið sé að vinna í leiðum til að koma í veg fyrir smit á leikunum og verða ráðleggingar birtar í vikunni fyrir bæði keppendur og gesti.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin vinnur einnig hörðum höndum að því að finna leiðir til þess að takmarka útbreiðsluna og hefur neyðarteymi verið stofnað í þeim tilgangi.

Að svo stöddu hefur 31 tilfelli verið staðfest í Bandaríkjunum. Hægt að rekja þau öll til ferðalaga um svæði þar sem veiran hefur greinst og vinnur National Institute of Health í Bandaríkjunum nú að því að þróa bóluefni gegn veirunni. Talsmenn stofnunarinnar vonast til þess að hægt verði að hefja klínískar prófanir á mönnum í lok ársins 2016.