Mynd: HuffingtonPost
Mynd: HuffingtonPost

Við þekkjum það flest að eiga slæma svefnlausa nótt og hvernig líkaminn á erfiðara með að höndla verkefni dagsins þegar svo ber undir. Það er margt sem á sér stað í líkamanum meðan við sofum og það er því ekkert skrítið að hann eigi erfitt með að vinna sína vinnu á daginn ef nóttin er ónýt.

Þó nokkrar rannsóknir hafa sýnt fram á gagnsemi þess að sofa og hversu mikið ógagn svefnleysi getur valdið. Sem dæmi hafa rannsóknir sýnt fram á tengsl svefnörðugleika og Alzheimer’s. Hvers vegna hefur hingað til ekki verið ljóst, en samkvæmd rannsókn sem unnin var við Washington University er ástæðan líklega uppsöfnun prótína í heila.

Prótínin Beta-amyloid og Tau hafa löngum verið tengd við hrörnunarsjúkdóminn Alzheimer. Þessi prótín er að finna í óeðlilega miklu magni í taugakerfi þeirra sem þjást af Alzheimer. Til að skoða hvernig svefnleysi getur ýtt undir sjúkdóminn var fylgst með 17 sjálfboðaliðum í svefni, svefnmynstri þeirra stjórnað og styrkur þessara tilteknu prótína skoðaður í heila þeirra.

Strax eftir eina svefnlitla nótt mældis hækkun í Beta-amyloid prótíninu í heila sjálfboðaliðanna, í samanburði við sjálfboðaliða sem fengu eðlilegan svefn. Hækkun í Tau var einnig til staðar þegar ítrekaðar svefntruflanir höfðu staðið í 1-2 vikur.

Að öllum líkindum er þessum uppsöfnuðu prótínum eytt þegar líkaminn fær loks sína hvíld. En þetta gæti þýtt að þeir sem glíma stöðugt við svefnvandamál gætu verið að safna upp óæskilegum prótínum í taugakerfinu. Þetta gæti líka verið vísbending um að þeir sem eru útsettir fyrir Alzheimer’s eiga erfiðara með að brjóta prótínið niður eftir svefnlausar nætur. Frekari rannsókna er þörf til að skera úr um orsakasamhengið hér. Það er þó allavega ljóst að þessar niðurstöður varpa ljósi á hvað gæti legið að baki fylgninnar milli svefnörðugleika og Alzheimer’s.

En hvort sem um hættu á Alzheimer’s er að ræða eða ekki þá mælum við með því að allir reynir að koma því þannig við að nægur svefn fáist. Svefninn passar nefnilega ekki bara uppá taugakerfið okkar heldur allt batteríið.