Alzheimers sjúkdómurinn hefur verið títt umræddur hér á Hvatanum í gegnum tíðina. Enda hefur þekkingu okkar á sjúkdómnum fleygt fram vegna fjölda rannsókna sem unnar eru í kringum hann.

Hvað það er sem veldur sjúkdómnum er ekki fullkomlega skilgreint, enda koma þar margir þættir að, erfðafræðilegir sem og umhverfisþættir. Sem dæmi virðast ákveðnar veirusýkingar geta ýtt undir myndun sjúkdómsins. Fleiri örverur hafa einnig verið nefndar og má þar nefna bakteríuna Porphyromonas gingivalis.

P. gingivalis er algeng í munni og talið er að u.þ.b. 1 af hverjum 5 séu með bakteríuna í eðlilegri flóru munnsins. Þó hún lifi þar í flestum tilfellum í sátt og samlynd við umhverfi sitt þá getur hún valdið tannholdsbólgum.

Leyfar af bakteríunni hafa fundist í taugavefssýnum úr Alzheimers sjúklingum og hefur það leitt vísindahópa til þess að skoða hvort hún geti á einhvern hátt stuðlað að myndun sjúkdómsins.

Bakterían finnst ekki bara í taugavefjasýnum Alzheimers sjúklinga heldur getur hún einnig ferðast frá munni yfir í heilann. Þetta kemur fram í rannsókn sem fjallað var um á árlegri ráðstefnu American Association of Anatomists, „Experimental Biology“ sem haldin var í Orlando dagana 6-9 apríl.

Rannsóknarhópurinn leitaði eftir bakteríunni, þ.e. erfðaefni hennar eða efni sem hún seytir, í heilasýnum frá látnum Alzheimers sjúklingum. Þau notuðust síðan við mýs til að skoða ferðalag bakteríunnar. Það var framkvæmt með því að koma bakteríunni fyrir í munni músanna og leita svo eftir henni í heilavef.

Enn á eftir að skilgreina hvaða líffræði liggur að baki því að bakterían ýtir undir Alzheimers. Sökudólgurinn gæti verið ensím sem bakterían seitir í miklu magni þegar hún t.d. veldur tannholdssýkingum. Það gætu verið góðar fréttir því þessi einsím eru heppileg lyfjamörk gegn bakteríunni.

Þar sem þessi baktería er tiltölulega algeng í bakteríuflóru okkar mannanna þá getur virst erfitt að berjast gegn henni og þá mögulega Alzheimers. Hér gildir því, eins og alltaf, að hugsa vel um tennurnar sínar, tannbursta og nota tannþráð, og reyna þannig að halda bakteríunni innan skynsamlegra marka.