Mynd: Biology Discussion
Mynd: Biology Discussion

Í nútímanum hvílir ábyrg notkun getnaðavarna yfirleitt á herðum kvenna. Eina áreiðanlega getnaðarvörnin sem karlar hafa kost á að nota er smokkur sem er reyndar meira en bara getnaðarvörn þar sem hann kemur einnig í veg fyrir smit kynsjúkdóma og er því einstaklega sniðugt tæki til að nota við fyrstu kynni. Nú hefur hópur við University of California birt niðurstöður sem gefa vísbendingar um að áreiðanleg getnaðarvörn fyrir karla gæti verið á næstu grösum.

Í rannsókninni var hópurinn að skoða þroskaferli sæðisfrumna í gegnum hormónið prógesterón. Þegar forverafrumur sæðisfrumna komast í tæri við prógesterón þá öðlast þær hæfileikann til að synda, sem verður að teljast nauðsynlegur hæfileiki fyrir sæðisfrumur. Í ljós kom að til að prógesterónið hafi þessi áhrif á sæðisfrumurnar þarf ensím sem kallast ABHD2 að vera virkt og til staðar.

Ef hægt er að hindra ABHD2 ensímið þá virkjast ekki hreyfigeta sæðisfrumnanna og þær geta þess vegna ekki synt þangað sem þær vilja fara. Að sama skapi væri hægt að virkja ensímið, sé það að valda ófrjósemi. Þó hér sé horft á niðurstöðurnar sem mögulega getnaðarvörn fyrir karla þá hafa þessar upplýsingar einnig áhrif á sýn vísindamanna á ófrjósemi karla. En með því að örva ferlið sem fer í gang þegar ABHD2 ensímið er virkjað þá er mögulega hægt að örva hreyfigetu sæðisfrumnanna og hjálpa þeim þannig að ná markmiði sínu sem er að frjóvga egg.

Það má því segja að þessar niðurstöður séu góðar fréttir fyrir karla hvar sem þeir eru staddir í lífinu. Mögulega verða áhrifa rannsóknarinnar verða vart í lífi þeirra sem þeir þrá að eignast börn en líka þeirra sem enn sem komið er gætu ekki hugsað sér að takast á við foreldrahlutverkið.