aogwnng46h9iv2kergow

Ný rannsókn á bandarísku rauðvíni leiddi í ljós að magn arsens í víni þar í landi er að meðaltali hærra en leyfilegt magn fyrir drykkjarvatn, samkvæmt fréttatilkynningu EurekAlert.

Í rannsókninni voru 65 rauðvínstegundir frá þeim fjórum fylkjum Bandaríkjanna sem framleiða hvað mest af rauðvíni (Kalifornía, Washington, New York og Oregon) greindar. Í ljós kom að magn arsens í rauðvínunum var á bilinu 10-76 milljarðshlutar eða að meðaltali 24 milljarðshlutar. Samkvæmt viðmiðunarmörkum U.S. Environmental Protection Agency skal drykkjarvatn í Bandaríkjunum þó ekki innihalda meira en 10 milljarðshluta af arseni.

Að auki er magn arsens í bandarísku rauðvíni hærra en í evrópskum vínum og er líklegt að ástæðuna megi rekja til mismunandi samsetningu jarðlaga í vínhéruðum Evrópu og Bandaríkjunum. Einnig er meira arsen að finna í rauðvíni en hvítvíni vegna þess að arsen safnast helst fyrir í húð vínberja sem eru fjarlægð þegar hvítvín er framleitt.

Þrátt fyrir þessar niðurstöður geta rauðvínsaðdáendur andað rólega því áhættan er ekki mikil fyrir meðalmanneskju. Mörkin fyrir magn arsens í neysluvatni eru eins lág og raun ber vitni vegna þess hversu mikið vatn fólk drekkur daglega. Vandamál geta þó skapast í þeim tilfellum þar sem fólk neytir mikið af matvælum sem innihalda arsen, svo sem eplasafa og hrísgrjóna sem hafa einmitt verið mikið í umræðunni undanfarið.

Tengdar fréttir:
Arsen í matvælum
Hvernig á að losna við arsen úr hrísgrjónum?