Mynd: shredfat.com
Mynd: shredfat.com

Þeir sem hafa reynt að missa nokkur kíló kannast við það að sú leið sem er vænlegast til vinnings er að stunda bæði líkamsrækt og borða hollan mat. Niðurstöður nýrrar rannsóknar, sem birtar voru Current Biology, benda þó til þess að mikil líkamsrækt hafi ekki þau áhrif sem hingað til hefur verið haldið fram, það er að líkaminn aðlagist aukinni hreyfingu í stað þess að brenna sífellt fleiri hitaeiningum.

Þetta er vandamál sem til dæmis hefur verið þekkt hjá fólki í ofþyngd. Eftir að breytt er um matarræði og aukin líkamsrækt stunduð verður þyngartap hratt í fyrstu. Eftir nokkra mánuði verður þó oft breyting þar á og fólk virðist standa í stað þrátt fyrir að líkamsrækt sé aukin. Þetta vildu Herman Pontzer og samstarfsfólk hans kanna og gerðu það með því að skoða daglega orkunotkun yfir 300 kvenna og karla frá fimm löndum í eina viku.

Niðurstöðurnar sýndu að þegar fólkið byrjaði að stunda líkamsrækt varð lítilsháttar aukning í orkunotkun. Þetta átti þó einungis við þegar fólkið stundaði hóflega hreyfingu og brenndi það um 200 fleiri hitaeiningum en þeir sem ekki stunda líkamsrækt. Þegar þessum punkti var náð virtist síðan sem að líkaminn aðlagaðist aukinni hreyfingu og ef líkamsrækt var aukin var engin frekari aukning í brennslu.

Þessar niðurstöður gætu útskýrt muninn á orkunotkun í veiðimanna og safnarasamfélögum og fólki í Bandaríkjunum og í Evrópu. Rannsóknir á veiðimönnum og söfnurum í Hazda ættbálknum í Tanzaníu hafa til dæmis sýnt það þrátt fyrir að Hazda fólkið hreyfi sig gríðarlega mikið dag hvern er dagleg orkunotkun þeirra svipuð og hjá fólki sem hreyfir sig lítið. Rannsóknarhópurinn telur að skýringin gæti legið í því að líkaminn hafi aðlagast þessari miklu hreyfingu með því að hægja á brennslunni.

Pontzer segir niðurstöðurnar ekki draga úr mikilvægi líkamsræktar enda hafi rannsóknir sýnt fram á þau fjölmörgu jákvæðu áhrif sem líkamsrækt hefur á bæði líkama okkar og huga. Niðurstöður ransóknarinnar benda hins vegar til þess að mataræði spila stærri þátt en áður hefur verið talið þegar fólk vill koma í veg fyrir þyngdaraukningu eða léttast.