marathon

Síðastliðna helgi tóku ótal Íslendingar þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. Að hlaupa maraþon er langt frá því að vera auðvelt og því miður alls ekki fyrir alla. Rannóknarhópur við Harvard Medical School hefur nú unnið að því að skilgreina fyrir hverja maraþonhlaupin eru eiginlega.

Eins og hópurinn kynnti á ráðstefnu American Chemical Society í gær er líklegt að munurinn á þeim sem hlaupa maraþon og þeim sem kjósa að sleppa því liggur í bakteríuflórunni. Rannsóknarhópurinn kortlagði bakteríuflóru hlaupara sem tóku þátt í Boston maraþoninu á tveggja vikna tímabili, viku fyrir og viku eftir hlaupið.

Einkennandi breytingar urðu á bakteríuflórunni strax eftir hlaupið, en þá tók bakteríutegund sem er þekkt fyrir að brjóta niður mjólkursýru stökk og óx mjög hratt. Hópurinn telur líklegt að þessi baktería hjálpi til við niðurbrot sýrunnar á meðan á hlaupinu stendur og einnig þegar því er lokið og hjálpar þannig líkamanum að jafna sig.

Fleiri mögulegar bakteríur gætu verið tengdar öðrum íþróttagreinum, en ef fram fer sem horfir getur hópurinn fljótlega markaðssett svokallaða probiotic bakteríur til þeirra sem vilja annað hvort auka frammistöðu sína í ákveðnum íþróttum eða jafnvel þeirra sem dreymir um að prófa að hlaupa t.d. maraþon.