nk_in_action

Mikill fjöldi baktería lifir í samlífi við manninn og nýlega hafa rannsóknir sýnt að tilvist þeirra hefur áhrif á holdafar, andlega líðan og jafnvel ástarlíf okkar. Þær eru nauðsynlegar, því er ekki að neita, en þær geta þó líka haft neikvæð áhrif á líkamann, án þess að vera sýkjandi, eins og kemur fram í grein eftir Chamutal Gur. En þar er fjallað um bakteríur sem hindra aðgengi ónæmiskerfisins að krabbameinsfrumum.

Mannslíkaminn er með ótrúleg varnarviðbrögð til að koma í veg fyrir krabbamein eins og til dæmis drápsfrumur (natural killing cells) sem eru hluti ónæmiskerfinu og éta krabbameinsfrumur. Þegar krabbamein myndast hafa frumurnar þó fundið leið framhjá ónæmiskerfinu, eða í flestum tilfellum að minnsta kosti. Í sumum krabbameinstilfellum felur krabbameinið sig þó bak við bakteríuna Fusobacterium nucleatum. Þessi baktería er tiltölulega algeng í munni sjúklinga með ristilkrabba.

Rannsóknahópur við The Hebrew University Hadassah Medical School skoðaði hvaða áhrif nærvera bakteríunnar hefði á viðbrögð drápsfrumna við ristilkrabbameinsfrumum. Hópurinn komst að því að drápsfrumurnar bindast við prótín á bakteríunni sem kallast Fap2 í gegnum TIGIT viðtaka. En þessi binding hindrar það að drápsfrumurnar komist að krabbameinsfrumunum og eyði þeim. Hins vegar ef Fap2 er ekki til staðar eða TIGIT viðtakinn er hindraður þá skynjar ónæmiskerfið ekki bakteríurnar og finnur krabbameinsfrumurnar.

Vonir standa til um að hægt verði að þróa sértækt krabbameinslyf sem hefur áhrif á þessa bindingu og koma þannig í veg fyrir verndandi áhrif Fusobacterium nucleatum á krabbameinsmyndun.

Hægt er að lesa meira um rannsóknina hér.