Yanomomi

Bakteríuflóra mannslíkamans hefur áhrif á nánast alla þætti tengda líkama mannsins, meira að segja er talið að bakteríuflóran geti haft áhrif á hegðun einstaklinga og makaval. Ný rannsókn sýnir að nútímalífshættir manna minnki fjölbreytileika bakteríuflórunnar.

Vísindahópurinn tók líkamssýni af Yanomami ættbálknum sem lifir einangrað í Amazon regnskóginum á mörkum Brasilíu og Venezuela. Sýnin voru tekin úr saur, munnholi og af húð til að skoða hvernig bakteríuflóra fólksins var uppbyggð. Þegar samsetning bakteríanna var skoðuð kom í ljós að fjölbreytileiki bakteríanna hjá þessum einangraða ættbálki er mun meiri en hjá ættbálkum Guahibo í Venezuela eða afskekktum samfélögum í Malaví, sem einnig hafa verið skoðuð í þessum tilgangi. Þegar bakteríuflóta Yanomami var borin saman við bakteríuflóru íbúa vestrænna ríkja, í New York nánar tiltekið, var munurinn á fjölbreytileikanum gríðarlegur.

Að auki kom í ljós að þær bakteríur sem lifa með Yanomami ættbálknum geyma fjöldan allan af genum sem gefa bakteríunum sýklalyfjaónæmi, þrátt fyrir að íbúar svæðisins hafi aldrei komið nálægt sýklalyfjum, en návígi við sýklalyf er talin ein helsta forsenda þess að sýklalyfjaónæmi þróist. Þróun sýklalyfjaónæmis er þó ekki alveg svo einföld þar sem sýklalyf koma einnig fyrir í náttúrunni, þaðan sem þau uppgötvuðust. Það þýðir að sýklalyfjaþol getur komið sér vel fyrir lífverur þrátt fyrir að sýklalyfið sé ekki tilkomið vegna tilskipunar læknis. Gen sem gefa sýklalyfjaþol hafa fundist í sýnum sem eru ævaforn og jafnvel sýnum sem tekin eru undan jökli.

Þessar niðurstöður sýna að sýklalyfjanotkun sem og aðrir lifnaðarhættir vesturlandabúa eins og matarræði hefur gríðarleg áhrif á bakteríuflóruna. Bakteríuflóran hefur eins og áður sagði áhrif á svo ótal margt sem snertir okkur í daglegu lífi en að auki er samsetning hennar talin tengjast fjölmörgum ört fjölgandi lífsstílssjúkdómum eins og offitu, sykursýki, krabbameinum og svona mætti lengi telja.