Mynd: Gold Functional Wellness
Mynd: Gold Functional Wellness

Átröskunarsjúkdómar á borð við anorexíu eru fyrirbæri sem hafa gríðarleg áhrif á líf fólks. Margar rannsóknir hafa verið gerðar til að skilgreina sjúkdóminn og smátt og smátt hefur hann verið að skýrast þó enn vanti mörg mikilvæg púsl. Rannsókn sem unnin var við University of North Carolina Health Care (UNC) bætir stórum bita í púslið með rannsóknum sínum á meltingabakteríum í sjúklingum með anorexíu.

Rannsóknir á bakteríum í meltingarvegi hafa sýnt að bakteríuflóran hefur áhrif á fjölmarga þætti mannlífsins. Bakteríuflóran getur haft áhrif á skap, sjúkdómsmyndun og þyngd svo eitthvað sé nefnt. Vegna þessara fjölda rannsókna sem sýna að bakteríuflóran hefur áhrif á þyngd einstaklinga, ákvað vísindahópur við UNC að skoða hvort bakteríuflóra anorexíusjúklinga væri sambærileg við bakteríflóru heilbrigðra einstaklinga.

Til að skoða það voru tekin saursýni úr 12 einstaklingum sem lagði voru inná UNC til aðhlynningar vegna anorexíu. Síðar, þegar einstaklingarnir höfðu náð bata gáfu þeir aftur saursýni til að meta hvort breyting hefði orðið á. Að auki voru saursýni úr heilbrigðum einstaklingum skoðað á sama hátt til samanburðar. Sýnin voru síðan skoðuð með tilliti til bakteríufjölda og samsetningar.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að sjúklingar sem voru lagðir inn vegna anorexíu, sýndu mjög lítinn fjölbreytileika í bakteríuflórunni. Þegar sjúklingarnir voru útskrifaðir af spítala hafði aukist mjög í flóruna, þrátt fyrir að enn væri langt í land að ná því sem heilbrigðir einstaklingar sýna.

Næstu skref rannóknarhópsins eru að skoða enn stærra úrtak og sannreyna niðurstöðurnar. Síðan mun hópurinn notast við saursýni úr einstaklingum sem glíma við átröskun og smita með því mýs sem hafa ekki komist í snertingu við neinar bakteríur. Með þessu má sjá hversu mikil áhrif bakteríuflóran hefur á einstaklinginn en rannsóknin benti til þess að bakteríuflóran hefði áhrif þætti eins og þunglyndi og kvíða, sem er einmitt hluti af anorexíusjúkdómnum. Það verður spennandi að fylgjast með frekari skilgreiningum vísindamanna á þessum flókna sjúkdómi.