october-pink-1714664_1920

Október er eins og margir vita bleikur mánuður til að auka vitundarvakningu á brjóstakrabbameini og öðrum krabbameinum sem herja á konur. Í október fer einmitt fram fjársöfnun með sölu á bleiku slaufunni, en fjármagninu er iðulega veitt til styrkingu innviða til meðhöndlunar eða grunnrannsókna á krabbameini.

Grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini eru mjög mikilvægar, þær gera okkur kleift að skilja sjúkdómana betur og þannig gefa okkur tækifæri til að þróa lyf eða meðferðir gegn krabbameininu. Sumar rannsóknir stuðla líka að aðgerðum sem gætu fyrirbyggt krabbamein, en rannsókn, unnin við Cleveland Clinic er einmitt dæmi um slíkt.

Í rannsókninni er horft eftir tenginu bakteríuflórunnar við þróun brjóstakrabbameins. Rannsóknarhópurinn bar saman bakteríuflóru kvenna með og án brjóstakrabbameins. Vefjasýni voru fengin við brjóstaminnkun eða við uppskurð vegna krabbameins.

Úr sýnunum sem fengin voru úr brjóstum 78 kvenna samtals var einangrað DNA og síðan gerð raðgreining á geni sem finnst einungis í dreifkjörnungum (þ.e. bakteríum) og heitir 16S. 16S gegnir mikilvægu hlutverki við að búa til prótín og er því mjög vel varðveitt. Þess vegna er það mikið notað til að tegundagreina bakteríur.

Þegar vefur heilbrigðra kvenna og kvenna með krabbamein var borinn saman með tilliti til tegundasamsetningu bakteríanna kom í ljós að þar er hægt að greina marktækan mun á milli. Sem dæmi má nefna að bakteríur af tegundinni Methylobacterium fundust í mun meira magni í krabbameinsvef samanborið við heilbrigðan vef. Mun í tegundafjölbreytileika var líka að finna þegar bornar voru saman mismuandi undirtýpur krabbameina.

Til að auka enn við gagnabankann voru einnig skoðuð þvag og munnstrokssýni frá sömu konum og gáfu vefjasýni. Bakteríuflóran þar var einnig skoðuð og samkvæmt þeim greiningum eru vísbendingar um að greina megi mun milli bakteríuflóru kvenna með og án krabbameins.

Enn sem komið er erfitt að segja til um hversu víðtækt væri hægt að nota svona greiningar til að greina krabbamein á forstigum. En æðsta takmarkið væri auðvitað að nota það sem kallast pro-biotics, til að aðlaga bakteríuflóru kvenna að því sem gæti stuðlað að heilbrigðari líkama.

Rannsóknin sem hér er vísað innihélt þó lítið úrtak og mun stærri rannsóknir þurfa að fara fram til að skilgreina að hverju er mikilvægt að leita. Þessi rannsókn sýnir þó enn einu sinni hvernig samtal líkama okkar við örveruflóruna hefur gríðarleg áhrif á okkur.