tumor_antigen_grein

Vonir standa nú til þess að hægt verði að nýta sömu hugmyndafræði og bólusetningar byggja á til að ráða niðurlögum krabbameina. Þá má í raun segja að sjúklingurinn fái bólusetningu gegn eigin krabbameini.

Allar frumur líkamans tjá prótín sem seytt er útá yfirborð frumnanna, tilgangurinn getur verið margskonar til dæmis verið viðtakar fyrir boðefni svo eitthvað sé nefnt. Í krabbameinum verða miklar breytingar á erfðaefninu, svo miklar að breytingar geta einnig orðið á prótínunum sem seytt er á yfirborðið. Það er einmitt þetta sem bólusetningin á að beina spjótum sínum að.

Til að geta skilgreint prótínin sem skilja að krabbamein og heilbrigðan vef þarf fyrst að raðgreina DNA raðir krabbameinsins í þaula og bera það saman við erfðaefni heilbrigðra frumna úr sama einstakling. Þannig er hægt að sjá hvaða prótín eru nægilega breytt og nægilega mikið tjáð í krabbameininu til að nota sem mótefnavaka, en ónæmisvaki er prótín sem frumur ónæmiskerfisins nota til að þekkja aðskotahluti. T frumur ónæmiskerfisins framleiða mótefni sem binst sérhæft við mótefnavakann og merkir þannig frumurnar sem bera mótefnavakann til eyðingar.

Ónæmisfrumur úr sjúklingnum eru meðhöndlaðar með þessum mótefnavökum, sem hvetur frumurnar til að framleiða mótefni gegn þessum tilteknu prótínum. Frumunum er svo sprautað inní krabbameinssjúkling og þær ferðast svo um líkamann, fjölga sér og finna fleiri frumur með mótefnavakanum og merkja þær til eyðingar.

Hingað til hefur þessi meðferð einungis verið prófuð á mjög litlum hópi sjúklinga með sortuæxli í þeim tilgangi að meta áhættuna sem fylgir meðferðinni. Niðurstöður rannsóknarinnar, sem birtist í Science gefa til kynna að aðferðin sé áhættulítil og einhver teikn eru á lofti um að hún gæti skilað góðum árangri í baráttunni við sortuæxli.

Hraðar framfarir á sviði raðgreininga hafa gert þetta að raunhæfum möguleika. Nú er hægt að fá nákvæmar raðgreiningar á löngum DNA röðum á tiltölulega ódýran og fyrirhafnalítinn máta. Næst á dagskrá er að gera enn stærri rannsókn til að meta árangur meðferðarinnar. Það verður spennandi að sjá hvað verður en slík meðferð gerir krabbameinsmeðferð sérhæfðari og vonandi áhrifameiri.