Mynd: Rui Vieira/PA
Mynd: Rui Vieira/PA

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar, sem birtar voru í Nature Medicine, gæti verið að lyfið denosumab sem hingað til hefur verið notað gegn beinþynningu geti einnig hjálpað þeim konum sem eru í áhættuhópi fyrir brjóstakrabbamein. Rannsóknir á notkun lyfisins sem fyrirbyggjandi meðferð gegn brjóstakrabbameini eru enn á frumstigi en lyfið hefur gefið góða raun í prófunum á músum.

Stökkbreytingar á genunum BRCA1 og BRCA2 auka líkur á brjóstakrabbameini og krabbameini í eggjastokkum kvenna mikið. Um helmingur kvenna með stökkbreytingu í BRCA1 eða BRCA2 kemur til með að fá brjóstakrabbamein fyrir 70 ára aldur og er áhrifaríkasta leiðin til að fyrirbyggja það í dag að fjarlægja brjóst kvennanna. Því er ljóst að ef fyrirbyggjandi meðferð finnst myndi hún geta breytt miklu fyrir þær konur sem bera stökkbreytinguna.

Í rannsókninni sem um ræðir notuðu vísindamenn brjóstavef úr konum sem höfðu greinst með BRCA1 stökkbreytingu. Úr vefnum einangruðu þeir hóp frumna sem hafði þann eiginleika að vaxa með miklum hraða og virtust því vera undanfari brjóstakrabbameins.

Í ljós kom að frumurnar höfðu á yfirborði sínu viðtaka sem nefnist RANK sem lyfið denosumab binst mjög sértækt og kemur í veg fyrir að hann virkist.

Prófanir á músum, sem ræktaðar voru til að þróa með sér brjóstakrabbamein, leiddu síðan í ljós að denosumab hamlaði vexti undanfara krabbameinsfrumna auk þess að hægja á æxlisvexti.

Rannsóknarhópurinn er að vonum ánægður með niðurstöðurnar en bendir á að enn sé langt í land. Eins og komið hefur fram var rannsóknin framkvæmd á músum og er óvíst að lyfið hafi sömu áhrif í mönnum. Klínisk rannsókn hefur nú þegar hafist til að meta áhrifin í mönnum og munu niðurstöður hennar vonandi reynast jákvæðar.