binge-drinking-1

Svo furðulega vill til að flestir þeir sem þróa með sér alkahólisma eru bláeygðir, það er kannski ekki svo furðuleg tilviljun. Ný rannsókn gefur vísbendingar um að mögulega leynist þarna erfðaþættir sem stuðla bæði að bláum augnlit og alkahólisma.

Rannsóknin er unnin við Háskólann í Vermont en Dawei Li sem stjórnar rannsókninni hefur lengi unnið að rannsóknum á geðrænum sjúkdómum. Þegar Li tók fyrir sjúkdóminn alkahólisma sá hann að þeir sem greindust með hann voru að miklu meiri hluta með blá augu. Þessi munur reyndist ekki tilviljun ein heldur er hann tölfræðilega marktækur.

Þegar erfðaþættir sem tengdir hafa verið við alkahólisma eru skoðaðir með tilliti til staðsetningu þeirra í erfðamenginu kemur í ljós að þeir eru staðsettir mjög nálægt genum sem hafa áhrif á augnlit. Grein þess efnis var birt í American Journal of Medical Genetics: Neuropsychiatric Genetics (Part B) á dögunum.

Enn eru þessar rannsóknir stutt á veg komnar en rannsóknarhópurinn vonast til að niðurstöðurnar muni ekki bara varpa ljósi á tilhneiginguna til að verða alkahólisti heldur einnig aðra geðræna sjúkdóma. Að auki má ætla að niðurstöðurnar getu verið hjálplegar við greiningu á alkahólisma og meðferða við kvillanum.