114

Ný rannsókn bendir til þess að blóðflokkar gætu haft áhrif á það hvort fólk þróar með sér Alzheimer eða ekki. Grein þess efnis var birt í tímaritinu Brain Reseach Bulletin á dögunum.

Rannsóknin fór fram við Háskólann í Sheffield og skoðuðu vísindamennirnir magn grás efnis í heila andlega heilbrigðra fullorðinna einstaklinga. Þeir báru niðurstöðurnar síðan saman við blóðflokka þátttakenda og kom í ljós að þeir einstaklingar sem voru með blóð í flokki O höfðu meira af gráu efni í heilanum en fólk í öðrum blóðflokkum.

Annalena Venneri, einn höfundur greinarinnar, sagði í fréttatilkynningu að líklegt væri að ástæðan gæti verið að blóðflokkar hafi áhrif á þroskun taugakerfisins. Ekki er þó enn vitað hvernig eða af hverju þessi munur er til staðar.

Með hækkandi aldri minnkar gráa efnið í heilanum og virðist því að þeir sem hafa blóð í flokki O séu ólíklegri til þess að þróa með sér Alzheimer. Ekki er þó ráðlegt að fólk í O blóðflokki fagni alveg strax enda er þörf á frekari rannsóknum til að skilja betur ástæðurnar sem liggja að baki þessum mun.