cb43e76f-6bf7-4e82-8fc1-95005d2c5626

Blóðflokkarnir A, B, AB og O eru flestum kunnugir. Flokkarnir eru byggðir á ákveðnum mótefnavökum sem fyrirfinnast á yfirborði rauðra blóðkorna. O blóðflokkurinn þýðir að engir mótefnavakar eru til staðar og þar af leiðandi geta einstaklingar úr öllum blóðflokkum fengið O-blóð. Hins vegar er hættulegt fyrir fólk að fá blóð sem inniheldur mótefnavaka sem líkami þeirra þekkir ekki og þannig getur manneskja í blóðflokki A ekki fengið blóð sem flokkast í blóðflokk B og svo framvegis. En mögulega verður bráðum hægt að meðhöndla blóðið svo mótefnavakarnir eru ekki lengur til staðar.

Til að gera blóð mótefnavakalaust er það meðhöndlað með ensími sem er af ensímfjölskyldu glýkósíð hýdrólasa. En slík týpa ensíma klippir sykrur, eins og mótefnavakarnir í blóðinu eru. Ensím sem gegna þessu hlutverki hafa lengi verið þekkt og hugmyndin um að umbreyta öllu blóði í vökva sem hægt er að nota fyrir alla blóðflokka varð til fyrir margt löngu, en til að hægt sé að nýta þessa tækni þurfa ensímin að vera mjög skilvirk og klippa burt alla mótefnavaka sem fyrirfinnast í blóðinu og þar hefur hugmyndin strandað.

Þangað til núna, en hópur við The University of British Columbia ákvað að beyta nokkurs konar kynbótum á ensímið til að auka skilvirkni þess. Hópurinn framkallaði tilviljanakenndar stökkbreytingar í geninu sem kóðar fyrir ensíminu. Virkni ensíma með mismunandi stökkbreytingar var svo skoðuð eftir og virkustu ensímin valin til að endurtaka ferlið. Það sem hópurinn stóð að lokum uppi með var ensím sem hafði 170 falda virkni í samanburði við upprunalega ensímið.

En betur má ef duga skal og stefni hópurinn á að taka ensímið alla leið, nógu langt til að það geti klippt alla mótefnavaka af blóðfrumum og að óhætt verði að gefa sjúklingum af hvaða blóðflokki sem er blóðið sem fæst útúr meðhöndluninni. Það verður áhugavert að fylgjast með áframhaldandi rannsóknum en ef vel heppnast til munu þessar niðurstöður gjörbreyta vinnuumhverfi spítala sem treysta að miklu leiti á blóðgjafir.