Mynd: American pregnancy association
Mynd: American pregnancy association

Baráttan við HIV hefur verið yfirstandandi í áratugi. Nú þegar hefur ótrúlegur árangur náðst í meðferð sjúklinga og sem betur fer er HIV smit ekki lengur sá dauðadómur sem það var. Hins vegar er staðreyndin sú að HIV smit hefur varanleg áhrif þar sem það er enn ólæknandi. Af þeim orsökum væri best að geta bólusett gegn veirunni og jafnvel með tíð og tíma útrýmt henni.

Bandarískir og þýskir rannsóknarhópar birtu á dögunum grein í Nature þar sem þau sýna fram á áhrif mótefnasprautu á apa sem eru svo smitaðir með SIV veiru, sambærilegri við HIV. Mótefnasprautur eru aðeins öðruvísi en hefbundnar bólsetningar vegna þess að bóluefni innihalda yfirleitt veiklaðan eða dauðan sýkil sem vekur upp ónæmiskerfið einstaklingsins og fær hann til að framleiða mótefni. Í hinu tilfellinu er mótefnum sprautað beint inní kerfið svo ónæmiskerfi einstaklingsins byrjar að vinna einu skrefi seinni samanborið við bólusetningu.

Í rannsókninni voru mótefni einangruð úr HIV smituðum einstaklingum, þ.e. mönnum. Mótefnunum var svp sprautað í apa sem síðan voru útsettir fyrir SIV. Apar sem ekki fengu mótefnasprautur smituðust eftir einungis þriggja vikna meðhöndlun. Þeir apar sem höfðu fengið mótefni smituðust ekki af veirunni fyrr en eftir 13 vikna meðhöndlun að meðaltali. Þeir sem lengst þurfti að meðhöndla til að smitið kæmi fram þraukuðu í 23 vikur. Líklega er þetta vegna þess að mótefnin brotna niður með tíð og tíma en þá virka þau ekki lengur sem skyldi.

Þessar niðurstöður benda til þess að mögulega verði hægt að búa til öflug mótefnalyf sem koma í veg fyrir HIV smit. Næstu skref í rannsókninni er að prófa mótefnin í mönnum og hefur 2700 manna hópur í Brasilíu orðið fyrir valinu. Þessi tiltekni hópur er nú þegar í áhættu fyrir að smitast af HIV. Vísindahópurinn sem vinnur að rannsókninni er bjartsýnn á að árið 2022 verðum við mögulega komin með nokkurs konar bólusetningu gegn veirunni sem hefur verið okkur svo mikil ráðgáta síðastliðna áratugi.