Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur samþykkt bóluefni gegn malaríu. Ef Alþjóðaheilbrigðisstofnunin gefur einnig sitt samþykki mun bóluefnið vera það fyrsta sinnar tegundar í heiminum.
Bóluefnið nefnist Mosquirix og var þróað af lyfjafyrirtækinu GlaxoSmithKline í samstarfi við PATH Malaria Vaccine Initiative. Bóluefnið var samþykkt af EMA til notkunar á sex vikna til 17 mánaða börnum.
Það gefur auga leið að mikil spenna ríkir fyrir bóluefninu enda er sjúkdómurinn alvarleg heilsufarsógn í fjölmörgum löndum. Talið er að eitt barn deyji á hverri mínútu af völdum malaríu og alls rúmlega hálf milljón manna á ári.
Sir Andrew Witty, forstjóri GlaxoSmithKline segir í fréttatilkynningu að þó svo að bóluefnið sé ekki lausn á malaríuvandanum muni það geta hjálpað til í baráttunni í þeim löndum þar sem vandinn er mestur.
Nú er bara að bíða og sjá hver niðurstaða ráðgjafahópa á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar verður. Ef niðurstaðan er jákvæð má búast við að bóluefnið komi á markað innan nokkurra ára.
Heimild: ScienceAlert
Tengdar fréttir:
Hvað er bóluefni?
Bólusetning gegn ebólu – jákvæð teikn á lofti
Getum við útrýmt HIV veirunni?