vaccine patch

Nú gæti loks verið von fyrir þá sem eru með óviðráðanlega sprautufælni, því nýjustu fréttir herma að fyrstu klínísku prófanir á bólusetningum með plástrum hefjist innan skamms og bólusetningarnar verði jafnvel komnar á markað í kringum 2017.

Umræðan hefur lengi legið í loftinu, ekki til að koma til móts við sprautfælna heldur til að koma bólusetningum á þá staði í heiminum þar sem skortur er á heilbrigðisþjónustu. Það vill þannig til að til að bólusetja þarf dauðhreinsaðar aðstæður, kæli til að geyma bóluefnin í og einnig örugga aðferð til að losna við rusl eins og sprautur. Þetta er því miður ekki til staðar hjá öllum ríkjum heims sem þó hafa mikil not af því að fá bólusetningu við sjúkdómum á borð við mislinga.

Ástæðan fyrir því að enn er notast við nálar er að mótefnavakarnir sem notaðir eru til að bólusetja eru svo stórar sameindir að þeir komast undir venjulegum kringumstæðum ekki í gegnum húðina. Nýlega birtist frétt um að heilbrigðisverkfræðingurinn Kasia Sawicka hefði, þar sem hún vann við Stony Brook University. leyst þrautina. Plásturinn sem hún fann upp kallast ImmunoMatrix. Í plástrinum hennar Kaisu er efni sem heitir poly-vinylpyrrolidone. Það drekkur í sig vatn úr húðinni sem síðan liggur á húðinni með plástrinum, leiðir til þess að ysta lag húðaðinnar bólgar örlítið, eins og við þekkjum öll eftir t.d. langa dvöl í heita pottinum. Við þetta verður húðin nægilega lek til að mótefnavakinn, húðaður með sérstökum nanótrefjum, komist í gegnum húðina.

Nú þegar hafa tilraunir verið gerðar á rottum og tilbúinni húð á rannsóknarstofu, sem hafa gefið góða raun. Næst á dagskrá eru því klínísk próf.

En Kaisa er ekki sú eina sem hefur unnið að þessu mikilvæga verkefni. Í mars birtist grein í Vaccine þar sem bandarískir vísindamenn við Georgia University sýna fram á sambærilega virkni í plástri sem þeir hafa þróað. Plástrarnir sem hannaðir voru við Georgia University innihalda fjölmargar örlitlar nálar sem koma bóluefninu áleiðis.

Í rannsókn sinni notast vísindamennirnir við Rhesus apa og prófa að bólusetja þá með bóluefni gegn sama sjúkdóm og Kaisa miðaði á, mislingum. Aparnir náðu að að mynda mótefni gegn mislingum og plástrameðferðin sýndi einungis smáværileg áhrif á húðina.

Búist er við að áframhaldandi prófanir verði framkvæmdar í nánustu framtíð, sem vonandi leiða til þess að brátt verður hægt að nálgast bólusetningar alls staðar, jafnvel þar sem aðstæður hafa hingað til ekki boðið uppá það.