747088-vaccinations

Þeim fjölgar enn sem telja bólusetningar vera af hinu illa. Helst er talið að rekja megi þennan hættulega misskilning til rannsóknar sem stýrt var af Andrew Wakefield, breskum skurðlækni. Í rannsókn sinni, sem seinna sannaðist að reyndist fölsuð, sýndi Wakefield fram á tengsl MMR bólusetningarinnar og einhverfu. Margsinnis hafa niðurstöður Wakefields verið hraknar og hann sjálfur hefur viðurkennt að hafa búið til niðurstöðurnar, en allt kemur fyrir ekki og enn eru einstaklingar sem ekki treysta bólusetningum.

Þess vegna halda vísindamenn áfram að skoða hvort mögulega einhver tengsl gætu verið þar á milli og nú síðast birtist grein í Journal of the American Medical Association þar sem skoðuð voru yfir 95.000 bandarísk börn.

Þar sem einhverfa hefur að einhverju leiti verið tengd erfðaþáttum voru þau börn sem áttu systkini með einhverfu talin í meiri áhættu að vera á einhverfurófinu en þau börn sem ekki áttu einhverf systkini. Fylgst var með börnunum yfir 6 ára tímabil og farið var aftur til ársins 1997 til að skoða gögn um systkini barnanna sem tóku þátt í rannsókninni.

Í ljós kom að börn sem áttu systkini á einhverfurófi voru í meiri hættu á að fá einhverfu miðað við börn sem ekki áttu systkini á einhverfurófi, óháð því hvort börnin fengu bólusetningu eða ekki. Raunin er sú að börn sem eiga einhverf systkini eru síður bólusett en þau sem ekki eiga einhverf systkini. Enginn munur var á áhættu þeirra að vera á einhverfurófi. Með öðrum orðum þá fundust engin tengsl milli bólusetninganna og einhverfu.

Síðan Andrew Wakefield birti rannsókn sína árið 1998 hafa fjölmargar rannsóknir farið fram til að staðfesta eða afsanna niðurstöður Wakefields. Engum hefur enn tekist að sýna fram á tengsl MMR bólusetningar og einhverfu hjá börnum, en margir taka þó áhættuna á því að börnin þeirra fái lífshættulega smitsjúkdóma á borð við mislinga.

Rannsókn Jain og samstarfsfélaga sem vísað er í hér að ofan verður að teljast afar sterk þar sem fleiri en 95.000 börn eru skoðuð með tilliti til bólusetninga en samt sem áður finnast engin tengls við einhverfu. Það er því vonandi að foreldrar sjái hag barna sinna í því að reyna frekar að bjarga þeim frá mislingum heldur en einhverfu.