Mynd: Clear Sight Optical
Mynd: Clear Sight Optical

Botox er taugalamandi efni framleidd af bakteríunni Clostridium botulinum. Botox stendur reyndar fyrir botulinum toxin en efnið er eitur sem bakterían framleiðir og getur efnið drepið fólk í ótrúlega litlu magni. Þrátt fyrir þetta er efnið notað til lækninga, í mjög litlum skömmtum, margfalt minni skömmtum en þarf til að drepa. Flest þekkjum við botox úr umræðunni um lýtaaðgerðir en raunin er sú að það er notað við alls kyns öðrum kvillum líka svo sem mígreni og óeðlilegum vöðvasamdráttum af ýmsu tagi.

Þegar efnið kom fyrst á markað var það leyft á þeim forsendum að eitrið breiðist ekki um líkamann, enda er ekki mjög þægileg tilhugsun að vita til þess að botox gæti verið að breiðast útí taugakerfið þitt. Nú virðist rannsókn unnin við University of Wisconsin-Madison þó benda til þess að efnið er ekki endilega staðbundið við staðinn þar sem því er sprautað.

Í rannsókninni vann hópurinn með músataugafrumur í rækt og fylgdist með dreifingu botoxins þegar því var spratuað í frumuræktina, sambærilegt og gert er þegar botoxi er sprautað í sjúkling. Í ljós kom að hluti af efninu ferðast yfir í nærliggjandi taugafrumur. Rannsókn af þessu tagi rennir stoðum undir þann grun sem lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur nú þegar leitt líkur að. Hins vegar á enn eftir að sýna fram á að sömu áhrifa gæti í lifandi líkama, þar sem frumur í rækt hegða sér oft á allt annan hátt en frumur í líkama. Auk þess sem rannsóknin var gerð í músafrumum en ekki mannafrumum.

Í kjölfarið munu þó mögulega koma fram frekari rannsóknir sem geta þá gefið okkur einhverjar hugmyndir um hvernig hægt er að betrumbæta efnið svo það virki örugglega staðbundið og skapi ekki neina hættu.