Það er þó nokkuð síðan að vísindahópur við Washington State University uppgötvaði fyrir tilviljun að BPA getur haft áhrif á kynfrumur spendýra. BPA er byggingareining ákveðinnar gerðar plasts en getur einnig hermt eftir ákveðnum hormónum og þannig ruglað gang líkamans. Í kjölfarið fóru plastvöruframleiðendur að notast við ný efni, ekki BPA en efni sem hafa svipðaða byggingu og gefa plastinu sömu eiginleika.

Eftir að hafa lesið fjöldan allan af greinum í fjölmiðlum sem útlista fyrir okkur hættuna sem stafar af BPA, er ekki nema von að við grípum allar vörur sem eru merkta BPA-lausar, feginshendi. En er endilega þar með sagt að við erum með örugga vöru í höndunum?

Í nýlegri rannsókn sem sami rannsóknarhópur (við Washington State University) birti í Current Biology koma fram vísbendingar þess efnis að svo er ekki. Í rannsókninni beindu þau sjónum sínum sérstaklega að BPS, BPF og BPAF. Öll eiga þessi efni sameiginlegt að hafa svipaða byggingu og BPA og vera byggingaeiningar mismunandi gerða plasts.

Áhrif BPA staðgenglanna voru ekki ósvipuð þeim áhrifum sem sýnt hefur verið fram á að BPA hafi á mýs. Aðallega er um að ræða galla í litningum kynfrumna. Þessi áhrif koma fram vegna hormónalíkra eiginleika efnanna, sem rugla kímlínufrumurnar við myndun kynfrumnanna. Gallar í litningum kynfrumnanna geta haft áhrif á frjósemi dýranna sem og heilsu þeirra á fullorðinsárum.

Áhrif BPA hefur verið staðfest í fjölmörgum dýrategundum og þar á meðal mönnum. Önnur efni sem hafa verið notuð í staðinn fyrir BPA, hafa ekki verið prófuð á sama hátt, hvað þá í jafnmiklum mæli. Hér liggja þó fyrir mjög sterkar vísbendingar þess að staðgenglar BPA eru ekki endilega betri.

Rétt er að árétta að niðubrot plastins í þessar byggingareiningar gerist mishratt eftir því hver uppistöðueiningin er. Þar að auki er ólíklegt er að nýlegt plast sem ekki hefur orðið fyrir hnjaski sé að leka mikið af BPA eða líkum efnum.

Allur er þó varinn góður og gott er að hafa í huga þegar vara er auglýst sem BPA-laus vara að það gerir hana ekki hættulausa. Þetta er enn ein áminningin um hversu mikilvægt það er fyrir okkur sem ætlum að búa okkur og afkomendum okkar framtíðarheimili á þessari jörð, að minnka notkun á plasti.