Mynd: How Stuff Works
Mynd: How Stuff Works

Við könnumst sennilega flest við að sjá plastvörur sem hafa verið merktar sérstaklega til að láta neytendur vita að hér er um að ræða vöru sem ekki inniheldur BPA. BPA eða bisphenol A er efni sem notað var í plast til að styrkja það. Í dag eru flestir plastframleiðendur búnir að skipta BPA-inu út fyrir önnur efni sem gefa plastinu svipaða eiginleika þar sem rannsóknir á BPA gáfu til kynna að efnið gæti haft áhrif á innkirtlakerfi dýra og manna.

En þó BPA sé ekki lengur notað í plastvörur þá hefur útlit plastsins ekkert breyst enda hafa ný efni komið í staðinn sem gera sama gagn fyrir plastið, spurningin er þá valda þau líka sama skaða?

Fyrstu rannsóknir sem bentu til skaðsemi BPA voru birtar í kringum 2008, einn af leiðandi höfundum í þeim rannsóknum er Nancy L. Wayne. Hún hefur nú birt nýja rannsókn, ásamt rannsóknarhópi sínum við UCLA, í Endocrinology þar sem bæði BPA og algengur staðgengill þess, bisphenol S (BPS) er skoðað.

Til að skoða áhrif efnanna notaðist hópurinn við zebra fiska, en þeir eru vinsæl tilraunadýr vegna þess að stóran hluta lífsferilsins eru fiskarnir glærir og auðvelt að fylgjast með frumuvexti. Þegar fiskarnir voru í nálægð við bæði BPA og BPS jókst þroskunarhraði þeirra og ungviði klöktust fyrr út en ella. Að auki sást aukin virkni í heilafrumum sem stjórna vexti einstaklinganna og þroskun æxlunarfæra. Þetta bendir til að efnin hafi einnig áhrif á kynþroska sem og almennan fósturþroska. Í flestum tilfellum voru áhrif BPS þau sömu eða svipuð og áhrif BPA.

Sýnt hefur verið fram á að BPA er svokallað estrogen-líkt efni, það þýðir að efnið getur örvað kerfi sem venjulega er stjórnað af estrógen tengdum hormónum. Í þessari nýju rannsókn sýna Wayne og samstarfsaðilar fram á að BPA/BPS miðlar ekki aðeins estrógen boðleiðum heldur virðast efnin einnig hafa áhrif á boðleiðir skjaldkirtils hormóna. Þetta rímar við þá staðreynd að efnin hafa bæði áhrif á vöxt og kynþroska.

Það er því líklegt að plast sem er laust við BPA sé ekki með öllu hættulaust, og á það við um allar vörur sem innihalda BPA en sá listi getur verið ansi langur ef marka má upptalningu wikipedia. En hvað er þá til ráða? Best er að nota plast sem allra minnst og nota í staðinn gler til að geyma drykki eða mat. Ef plast er notað þá er gott að hafa í huga að þó BPA/BPS leki úr plasti yfir í mat eða drykki þá er lekinn háðuð tíma, þannig að styttri tími þýðir minni BPA/BPS í matnum.

Svona rannsóknir munu svo vonandi vekja framleiðendur til umhugsunar um hvernig ílát sé hættuminnst að nota.