Mynd: Discover
Mynd: Discover

BPA eða bisphenol A er íblöndunarefni sem oft er notað í plastumbúðir til að gefa þeim ákveðinn sveigjanleika. Fyrir ekki svo löngu síðan uppgötvaðist að áhrif BPA á lífverur eru ekki sérlega jákvæð því BPA getur hermt eftir áhrifum kvenhormóna og haft þannig áhrif á líkamsstarfsemi okkar. Nýleg rannsókn á skjalbökum hefur nú sýnt að efnið getur bæði breytt kyni skjaldbaka sem og aukið ákveðna kynbundna hegðun meðal tegundarinnar.

Skjaldbökur hafa ekki kynlitninga eins og mörg önnur dýr, sem ræður því hvort úr verður karlkyns eða kvenkyns einstaklingur. Það sem ræður kyni hjá skjaldbökum er hitastigið sem eggin þroskast við. Rannsókn sem vísindahópur við University of Missouri birti fyrir nokkru síðan sýndi að þegar skjaldbökuegg komast í návígi við BPA eru áhrifin af efninu, hitastiginu yfirsterkari og því klekjast út fleiri kvenkyns skjaldbökur en karlkyns.

Þessi sami hópur hefur nú birt nýja rannsókn sem sýnir að BPA í litlu magni nær kannski ekki að breyta kyni dýranna en hefur þó áhrif á hegðun þeirra.

Í rannsókninni var skjaldbökueggjum klakið út við mismunandi aðstæður, þ.á.m. við lágan styrk af BPA. Þegar ungviðin skriðu úr eggjunum var hlutfall kynjanna í samræmi við hitastigið sem eggin voru geymd við. Hins vegar þegar farið var að fylgjast með hegðun dýranna kom í ljós að karlkyns skjaldbökur sem höfðu komist í snertingu við BPA á þroskastigi hegðuðu sér á sama hátt og kvenkyns skaldbökur.

Kvenkyns skjaldbökur eru ratvísari en þær sem eru karlkyns, þar sem kvenkynið leitar aftur uppi ströndina þar sem þær verpa eggjunum. Þegar prófuð var hæfni skjaldbakanna til að rata um völdunarhús kom í ljós að karlkyns skjaldbökur sem höfðu orðið fyrir áhrifum BPA voru færari í því en karlkynsskjaldbökur sem ekki höfðu komist í snertingu við efnið.

Þetta kann að hljóma saklaust og betri ratvísi er nú varla neikvæð, en rétt er að benda á að þessi hegðun er mögulega einungis vísbending um það hvernig hegðun kynjanna breytist. Á sama hátt og BPA hefur áhrif á ratvísi getur efnið haft áhrif á kynhegðun skjaldbakanna svo þeir leitast ekki við að makast eða vita ekki hvernig þeir eiga að heilla til sín kvendýrin. Þar af leiðandi getur þetta haft gríðarleg áhrif á stofninn.

BPA hefur nú verið fjarlægt úr fjölmörgum plastvörum, sem er jákvætt. Athyglisvert er þó að velta fyrir sér að sú breyting virðist ekki hafa haft mikil áhrif á eiginleika plastsins svo mögulegt er að í staðinn sé notað efni sem gefur plastinu svipaða eiginleika og hefur því jafnvel sömu hormónalíku áhrif. Þar að auki er umhverfið okkar enn uppfullt af gömlu plasti sem hefur t.d. endað í sjónum en ekki í endurvinnslunni. Rannsóknir sem þessar vekja okkur því enn og aftur til umhugsunar um hversu mikilvægt það er að hemja plastnotkun sem mest við getum og endurnýta eða endurvinna allt sem mögulegt er.