Efnið Bremelanotide er peptíð (stutt prótín). Það er samsett úr 7 amínósýrum og er hluti af prótíninu melanocortin. Peptíðið Bremelanotide binst við viðtaka í heilafrumum sem kallast melanocortin-viðtaki-4 og hefur þannig áhrif á kynhvöt. Þar sem lyfið hefur áhrif í miðtaugakerfinu en er ekki bundið við ákveðin líffæri, þ.e. kynfæri, þá hefur það áþekk áhrif á konur og karla. Að auki á lyfið að örva kynhvötina, en virkar ekki eins og t.d. viagra, sem viðheldur stinningu ef næg kynhvöt er til staðar.

Um áramót sendi Palatin technologies, lyfjafyrirtæki, frá sér tilkynningu um að þriðja fasa tilraunir á lyfinu myndu hefjast um mitt ár 2016. Þriðji fasi lyfjatilrauna felur í sér prófanir á sjúklingum, þar sem skilvirkni og áhættuþættir lyfjanna eru prófaðir. Lyf sem standast þriðja fasa eru hæf til að fara á markað.

Í meðfylgjandi myndbandi fara strákarnir í scienceASAP yfir sögu lyfsins á skemmtilegan hátt.