Mynd: Discover
Mynd: Discover

Nýlega gáfu tvær breskar stofnanir, U.K. Human Fertilisation og Embryology Authority (HFEA), vísindamönnum við The Francis Crick Institute leyfi til að nota CRISPR-Cas til að erfðabreyta fósturvísum. Samkvæmt rannsóknaráætlun verður fylgst með þroska fósturvísanna í 7 daga en lengur mega fósturvísarnir ekki lifa. Áður en rannsókninni verður ýtt úr vör þarf þó samþykki vísindasiðanefndar Bretlands.

Fósturvísarnir sem verða notaðir, ef til rannsóknarinnar kemur, munu vera gjafir frá fólki sem hefur undirgengist glasafrjóvgun, fósturvísarnir eru þá aukafósturvísar sem foreldrarnir gefa með upplýstu samþykki.

Vísindahópurinn mun nota sértæka aðferð sem kallast CRISPR-Cas til að breyta ákveðnum genum í erfðamenginu. Aðferðin byggir á mjög nákvæmum ensímhvörfum, þar sem CRISPR-Cas kerfið þekkir stuttan DNA bút í mark-geninu, klippir hann út og splæsir nýjum, endurbættum, bút inn í staðinn. Þetta kerfi hefur stundum verið kallað ónæmiskerfi baktería, en bakteríur nota þetta kerfi til að klippa veiru DNA raðir úr sínu eigin. Vísindamönnum hefur svo tekist að þróa aðferð þar sem kerfinu er stjórnað mjög nákvæmlega til að endurbæta nánast allar mögulegar raðir erfðamengisins.

Eitt genanna sem til stendur að skoða heitir OCT4 og vitað er að það spilar hlutverk í fósturþroska í músum. Í rannsókninni verður fylgst með fósturvísunum í sjö daga, en þegar þangað er komið í fósturþroska hafa myndast þrjár frumugerðir, hluti þeirra myndar fóstrið sjálf, annar hluti myndar fylgjuna og sá þriðji mun mynda næringarbelginn sem umlykur fóstrið. Á þessum stutta tíma verður því hægt að sjá hvar OCT4 genið er tjáð og í hversu miklu magni, með því er hægt að skilgreina hlutverk þess í fósturþroska enn betur.

Rannsókninni er ætlað að stuðla að betri þekkingu á fósturlátum og ófrjósemi. Vonir standa til að með rannsóknum sem þessum verði hægt að gera tæknifrjóvganir skilvirkari, til dæmis með því að skima fyrir fósturvísum sem tjá mikilvæg gen á réttan hátt.

Eins og gefur að skilja er málið mjög viðkvæmt og hópurinn hefur ekki fengið samþykki vísindasiðanefndar sem er mjög mikilvægt skref áður en lengra er haldið. Hópar sem styðja rannsóknina telja líklega jafnmarga vísindamenn og þeir hópar sem vilja setja varnagla á og segja að rannsóknir sem þessar séu fyrstu skrefin að því að „hanna“ börn.

Hér þarf því að stíga mjög varlega til jarðar og þó rannsóknir sem þessar geti skilað mikilli þekkingu og geti jafnvel hjálpað ótal pörum sem glíma við ófrjósemi þá er núna tækifærið fyrir erfðafræðinga að setjast niður með siðfræðingum og ræða þessi málefni til hlítar. Það skiptir allt samfélagið, og sérstaklega komandi kynslóðir, mjög miklu máli að hér verði teknar yfirvegaðar og upplýstar ákvarðanir.

Heimildir:
The Francis Crick Institute
Science Media Center
The Telegraph