_67619413_p6800679-human_blastocyst-spl

Vísindamenn við The Francis Crick Institute í London hafa sótt um leyfi til þess að erfðabreyta fósturvísum, að því er kemur fram á vefsíðu BBC. Ef leyfi fæst verður það í fyrsta skipti sem rannsókn af þessu tagi fær leyfi í landinu.

Eins og staðan er í dag er ólöglegt að nota erfðabreytta fósturvísa í glasafrjóvgunarmeðferðum í Bretlandi. Það er þó mögulegt að gera slíkar breytingar í rannsóknarskyni með sérstöku leyfi. Þrátt fyrir það er umsóknin sú fyrsta sinnar tegundar í Bretlandi sem er það sem gerir hana sérstaka.

Í umsókninni sem um ræðir vilja vísindamenn nota tækni sem nefnist Crispr/Cas9 til þess að gera breytingar á erfðaefni fósturvísa, samkvæmt talsmanni Human Fertilisation & Embryology Authority (HFEA). Fóstuvísunum yrði síðan eytt að rannsókninni lokinni.

Rannsóknarhópurinn vill nota tæknina til þess að skoða fyrstu stig fósturþroska með það að markmiði að skilja betur hvers vegna sumar konur missa fóstur.

Rannsóknir sem þessar eru mjög umdeildar og telja flestir vísindamenn að ekki sé réttlætanlegt að nota tækni sem þessa til að breyta erfðaefni í þeim tilgangi að nota fósturvísana í glasafjróvgunarmeðferðum. Margir telja þó að rannsóknir séu réttlætanlegar ef fósturvísunum er eytt að þeim loknum og verður spennandi að sjá hver niðurstaða HFEA verður.