screen-shot-2016-12-15-at-21-20-28

Frá og með deginum í gær varð leyfilegt að búa til börn úr erfðaefni þriggja einstaklinga í Bretlandi. Bretland er fyrsta landið sem leyfir tæknina sem byggir á því að hvarberaerfðaefni móður er skipt út fyrir hvatberaerfðaefni annarrar konu.

Hvatberar eru orkueiningar frumna og eru þeir ekki til staðar í þeim hluta sáðfrumunnar sem rennur saman við egg við frjóvgun. Því erfist hvatberaerfðaefni eingöngu frá móður. Beri móðir gen fyrir ákveðnum sjúkdómum í hvatberaerfðaefninu erfist sjúkdómurinn því aðeins frá henni og er hugmyndin að baki tækninni sú að koma í veg fyrir að lífshættulegir sjúkdómar berist frá móður til barns með hvatberaerfðaefninu. Fyrsta barnið sem fæddist með hjálp tækninnar fæddist í Mexíkó fyrr á árinu þar sem engar reglur gilda um slíkar meðferðir.

Líkt og með aðrar meðferðir þar sem átt er við erfðaefni einstaklings er tæknin mjög umdeild. Ákvörðun sem þessi er því ekki tekin í flýti og tók það The Human Fertilisation and Embryology Authority (HFEA) í Bretlandi yfir fimm ár að meta tæknina áður en leyfi var gefið. Ætlunin er að kynna meðferðina til sögunnar varlega og verður hvert og eitt tilfelli metið sérstaklega.