embryo-1514192_1280

Þroskunarfræðingurinn Fredrik Lanner við Karolinska háskólann í Svíþjóð hefur framkvæmt erfðabreytingar á heilbrigðum fósturvísum fyrstur manna, svo vitað sé. Afar strangar reglur gilda um erfðabreytingar fósturvísa og í dag er ólöglegt að gera slíkar breytinga ef ætlunin er að fósturvísarnir verði að fullþroska einstaklingi.

Tæknin sem Lanner notast við nefnist CRISPR/Cas en með henni er mögulegt að gera mjög nákvæmar erfðabreytingar. Með tækninni skapast því möguleikar á því að breyta erfðaefni fósturvísa og væri til dæmis hægt að nýta hana til að útrýma ákveðnum sjúkdómum í framtíðinni.

Á undanförnum árum hafa hraðar framfarir átt sér stað í erfðatækni og þá sér í lagi þegar kemur að erfðabreytingum fósturvísa. Í fyrra sögðu vísindamenn í Kína frá því að þeir hafi erfðabreytt fósturvísum sem ekki voru lífvænlegir, meðal annars í þeim tilgangi að rannsaka sjúkdóminn beta-dvergkornablóðleysi. Fyrr á þessu ári fengu vísindamenn við Francis Crick Institute í Bretlandi síðan leyfi til að erfðabreyta heilbrigðum fósturvísum gegn því að þeim væri eytt innan sjö daga.

Rannsóknir Lanner ganga út á að uppgötva nýjar meðferðir við ófrjósemi auk þess að rannsaka stofnfrumur fósturvísa. Lanner vonast til þess að rannsóknir hans muni í framtíðinni hjálpa þeim sem glíma við ófrjósemi, varpi ljósi á leiðir til að koma í veg fyrir fósturlát og að hægt verði að nýta niðurstöðurnar til að meðhöndla sjúkdóma.

Í samtali við NPR sagði Lanner að öllum fósturvísum í rannsókninni hans sé eytt innan 14 daga frá frjóvgun. Lanner sagðist einnig vera á móti því að tæknin væri nýtt í að búa til svokölluð „hönnunarbörn“ þar sem eiginleikum á borð við augnilt, hárlit og hæð sé breytt.

Frá upphafi hefur CRISPR/Cas tæknin verið afar umdeild og eru skiptar skoðanir á því hvort réttlætanlegt sé að grípa inn í fósturþroska með þessum hætti. Þeir sem hlynntir eru tækninni hafa bent á kosti þess að geta komið í veg fyrir lífshættulega sjúkdóma. Aðrir hafa talað gegn tækninni og meðal annars nefnt að með þessum hætti sé verið að breyta erfðaefni einstaklings án þess að hann hafi gefið fyrir því leyfi sjálfur, þar að auki sé óvíst hvaða langtímaafleiðingar breytingar á erfðaefni komi til með að hafa.