Mynd: Biology Qs&As
Mynd: Biology Qs&As

Margir hafa kannski nú þegar heyrt talað um þessa byltingakenndu krabbameinsmeðferð. Í henni er notast við T-frumur, sem tilheyra ónæmiskerfinu, til að ráðast á blóðfrumukrabbamein og eyða því. Þessi meðferð hljómar næstum of góð til að vera sönn, en lítum nánar á hvað er hér á ferðinni.

Til að skilja hvernig T-frumurnar eyða krabbameininu er fyrst mikilvægt að vita að ónæmiskerfið leikur stóran þátt í líkamanum við að halda krabbameinsmyndun niðri. Ónæmiskerfið starfar nefnilega þannig að það þekkir veikar frumur, sem eru sýktar með veirum til dæmis og þær frumur sem tilheyra krabbameini. Krabbameinsfrumur hegða sér á margan hátt öðruvísi en venjulegar frumur, meðal annars með því að tjá gen sem er þeim ekki eðlislægt að tjá og slíkar breytingar þekkir ónæmiskerfið. Þegar krabbamein myndast þá er það vegna þess að krabbameinsfrumunum hefur tekist að leika á ónæmiskerfið, yfirleitt með hálfgerðum blekkingum, þ.e. ónæmiskerfið hættir að sjá hvað þær eru óeðlilegar en stundum gefst ónæmiskerfið líka upp vegna þess að krabbameinsfrumunum fjölgar bara einfaldlega of hratt. Þessi ferli vildi rannsóknarhópur við Fred Hutchinson Cancer Research Center skoða betur og reyna að nýta við krabbameinsmeðferð.

Hópurinn einangraði T-frumur úr sjúklingum með hvítblæði, erfðabreytti þeim til að gera þær næmari á merki frá krabbameinsfrumum og sendi þær svo aftur inní líkama sjúklinganna til að finna krabbamein og eyða þeim. Þessi aðferð, sem var prófuð á raunverulegum sjúklingum, skilaði að sögn Stanley Riddell, stjórnanda rannsóknarinnar, heilmiklum árangri. 94% sjúklinga sem þjáðust af bráða eitilfrumuhvítblæði (ALL) fengu einhvern bata og þegar sjúklingar með annars konar blóðsjúkdóma voru skoðaðir fengu yfir 80% þeirra bata.

Þessi meðferð er þó ekki alveg jafn dásamleg og hún hljómar því þessu aukna álagi á ónæmiskerfið geta fylgt erfiðar aukaverkanir. Ónæmiskerfið getur brugðist of harkalega við það getur í besta falli leitt til flensulíkra einkenna en einnig fengu einhverjir sjúklingar cytokine release syndrome, sem getur verið mjög alvarlegt. Stór hlut sjúklinganna upplifði hita og beinverki þar sem ónæmiskerfið fór á yfirsnúning og hagaði sér eins og sjúklingarnir væru með einhvers konar sýkingu.

Rétt er þó að nefna að ein mjög jákvæð hliðarverkun gæti hlotist af meðferðinni, en hún er sú að ónæmiskerfið man alltaf eftir krabbameinsfrumunum þó meðferð ljúki. Þetta þýðir að ef krabbameinið tekur sig upp aftur er líklegt að ónæmiskerfið nái því löngu áður en krabbameinið nær að gera nokkurn skandal.

Þeir sjúklingar sem hafa undirgengist meðferðina, eitthvað um 30 einstaklingar, hafa allir verið á lokastigum sjúkdóma sinna. Þessi meðferð sem enn er á tilraunastigi hefur því einungis verið prófuð á sjúklingum sem eiga lítinn tíma ólifaðan og svara engri annarri meðferð. Vegna aukaverkanna meðferðarinnar er ólíklegt að hægt verði að beita henni á aðra sjúklinga fyrr en hægt verður að ná betri stjórn á ónæmissvarinu.

Meðferðin hefur verið þróuð með sjúkdóma eins og hvítblæði eða eitlakrabbamein í huga en með frekari rannsóknum verður kannski mögulegt að beita svipuðum aðferðum á önnur krabbamein, sem mynda þá staðbundin æxli.

Enn sem komið er hafa þessar niðurstöður einungis verið kynntar á ráðstefnu AAAS en rannsóknin er í yfirlestri hjá ritrýndu tímariti. Það verður spennandi að fylgjast með útgáfu greinarinnar þar sem vonandi verður hægt að glöggva sig enn betur á því hvaða möguleika þessi meðferð mun raunverulega opna.

The Guardian fjallar um málið.