Mynd: Fuel Your Motionography

Hreyfing er eins og allir vita mikilvæg fyrir heilsuna. Sumum finnst hún samt hreint ekki skemmtilegt og geta þeir eflaust glaðst yfir niðurstöðum rannsóknarinnar sem þessi frétt fjallar um.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar, sem kynntar voru á alþjóðlegri ráðstefnu um endoþelín á dögunum, hefur inntaka á C-vítamíni jákvæð áhrif á æðaspennu í líkamanum. Í rannsókninni voru þátttakendur, sem allir voru í yfirþyngd, ýmist beðnir um að taka inn 500 mg af C-vítamíni á dag eða ganga rösklega nokkrum sinnum í viku. Í ljós kom að C-vítamín inntakan og gangan höfðu sambærileg áhrif á æðaspennu í líkamanum.

Niðurstöðurnar eru þó langt því frá að vera næg ástæða til að gefa hreyfingu upp á bátinn.

Í fyrsta lagi var úrtak rannsóknarinnar lítið eða aðeins 35 einstaklingar (15 sem byrjuðu að hreyfa sig reglulega og 20 sem byrjuðu að taka C-vítamín). Í öðru lagi var aðeins verið að mæla einn þátt í heilbrigði hjarta- æðakerfisins sem segir ekki alla söguna enda er fjölmargt sem getur spilað inn í.

Þrátt fyrir þetta eru niðurstöðurnar áhugaverðar og telur rannsóknarhópurinn að niðurstöðurnar gætu til dæmis gagnast þeim sem ekki geta stundað hreyfingu af einhverjum ástæðum í framtíðinni.