chili-peppers

Okkur er tilkynnt reglulega í fjölmiðlum að offita er vaxandi vandamál, hjá Íslendingum sem öðrum evrópuþjóðum og lausnarinnar við því er leitað logandi ljósi í vísindaheiminum. Lausnin virðist vera einföld, borða rétt og hreyfa sig, en það er bara alls ekki svo einfalt. Mörgum reynist mjög erfitt að hætta að borða mikið þrátt fyrir að viljinn sé svo sannarlega fyrir hendi. Það er kannski bara eðlilegt að þetta reynist fólki erfitt þar sem líffræðin á bak við fæðuinntöku er einnig mjög flókin.

Rannsóknarhópur við háskólann í Adelaide vann að rannsókn þar sem viðbrögð líkamans við áti voru skoðuð. Þá voru sérstaklega skoðaðir viðtakar sem staðsettir eru í maganum og láta okkur vita þegar við eigum að hætta að borða. Þessir viðtakar heita TRPV1 viðtakar og virkjast þegar efni úr chillí pipar sest á þá. Þessir viðtakar ásamt togi á maganum, sem verður við át, miðla skilaboðum til heilans um að nú skuli hætta inntöku á mat. Hins vegar eru viðtakarnir lítt virkir þegar fituríkrar fæðu er neytt og það sem meira er, ef viðtakarnir eru ekki virkir þá miðlast togið frá maganum ekki á jafn skilvirkan hátt.

Aðstandendur rannsóknarinnar binda vonir við að mögulega verði hægt að nýta chillí pipar til að snúa við vanvirkni viðtakans hjá einstaklingum sem glíma við offitu. Að auki væri hægt að nýta þessa vitneskju til að hjálpa einstaklingum að borða minna, áður en til offitu kemu.

Tengdar fréttir Tengsl milli dánartíðni og neyslu á sterkum mat