human cell

Frumuhimnan er stórmerkilegt og mikilvægt fyrirbæri. Hún umlykur allt innihald frumunnar og viðheldur heilleika hennar. Að auki gegnir frumuhimnan mikilvægu hlutverki við flutning efna inní eða útúr frumunni.

Frumuhimnan er samsett úr svokölluðum fitusýrum, sem eru með vatnssækinn haus og vatnsfælinn hala. Frumuhimnan er tvílaga svo utaná frumuna raðast vatnssæknir hausar sem og inní frumuna en á milli hausanna er þykkt lag vatnsfælinna hala. Vitað er að samsetning fitusýranna er mismunandi eftir tilgangi frumnanna eða fæðuinntöku einstaklinga en samsetning frumuhimnunnar getur haft áhrif á flutning efna yfir hana og að auki taka fitusýrurnar sjálfar oft þátt í boðefnaflutningum.

Mjög áhugaverð rannsókn var nýverið birt í Journal of biological rythms þar sem rannsakendur skoðuðu breytingar á samsetningu frumuhimnu á mismunandi tímum. Tuttugu einstaklingar voru skoðaðir, þá var frumum safnað af innanverðri kinn, á þriggja klukkustunda fresti, einn dag í mánuði í heilt ár. Sýnin voru svo skilgreind með tilliti til fitusýra sem venjulega byggja frumuhimnuna.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar var sú að marktækar dægursveiflur verða á ellefu af þeim þrettán fitusýrum sem voru skoðaðar. Þessar dægursveiflur eru að öllum líkindum mikilvægar fyrir starfsemi líkamans á ákveðnum tímapunktum dagsins. Annað sem kom rannsakendum á óvart var sú staðreynd að aðeins helmingur hópsins sýndi árstíðartengdar sveiflur í frumuhimnunni, en sveiflurnar voru ekki sambærilegar milli einstaklinga. Sveiflur sem þessar eru þekktar hjá dýrum og leiða má líkur að því að þær hafi horfið hjá manninum með tilkomu rafmagnslýsingar og upphitunar húsa.

Mögulega hafa þessar sveiflur í samsetningu frumuhimnunnar áhrif á það hvers vegna til dæmis dauðsföll vegna hjartaáfalla eru algengari á ákveðnum tímum dags. Þar af leiðandi gæti skortur á árstíðarsveiflum mögulega ýtt undir ástand sem er líkamanum ekki eðlilegt og geri hann þannig útsettari fyrir sjúkdómum.

Að lokum er rétt að minna á að samsetning frumusýranna stýrist að miklu leiti af fæðuinntöku, þess vegna er reglulegt og fjölbreytt matarræði einnig lykilþáttur í að viðhalda heilbrigði frumuhimnunnar. Hugsum vel um himnurnar okkar og stuðlum þannig að auknu heilbrigði.