Mynd: BYU Department of History
Mynd: BYU Department of History

Með hröðum framförum í læknavísindum og auknum lífsgæðum hafa lífslíkur fólks víða um heim aukist á síðustu áratugum, því miður virðist það þó ekki eiga við alla. Samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar vísindamanna við Princeton háskóla í Bandaíkjunum hefur dánartíðni hvítra karlmanna á miðjum aldri í Bandaríkjunum þvert á móti aukist.

Niðurstöðurnar komu vísindamönnunum í opna skjöldu en samkvæmt þeim hefur dánartíðani miðaldra hvítra karlmanna í Bandaríkjunum aukist marktækt á síðastliðnum 15 árum, ólíkt því sem hefur gerst hjá öðrum aldurshópum og kynþáttum. Áhrifanna var að gæta hjá mönnum á öllum menntunarstigum en þau voru hvað mest hjá þeim sem voru minnst menntaðir og hafði dánartíðnin aukist í þeim hópi um 22%.

Ekki er vitað nákvæmlega hvaða ástæður liggja að baki en talið er að rekja megi muninn að miklu leiti til þess að hópurinn er útsettari fyrir því að fremja sjálfsvíg auk þess að vera líklegri til að misnota eiturlyf og áfengi. Höfundar greinarinnar benda á að á síðustu árum hefur aðgengi að lyfseðilskyldum verkjalyfjum orðið auðveldara en áður var. Auk þess hafi karlmenn á þessum aldri talið að þeir yrðu betur staddir fjárhagslega en raun ber vitni og telur rannsóknarhópurinn að fjárhagsáhyggjur gætu spilað inn í.

Rannsóknarhópurinn skoðaði dánarmein hópsins og kom í ljós að mikil aukning hefur verið í tíðni sjálfsvíga eða 81% aukning. Einnig voru dauðsföll sem tengdust eitulyfja og áfengisnotkun fjórfalt fleiri en áður og dauðsföll tengd krónískum lifrarsjúkdómum og skorpulifur höfðu aukist um 50%. Aðeins mátti rekja aukninguna til dauðsfalla tengdum offitu að litlu leiti.

Angus Deaton, einn höfundir greinarinnar, bendir á það í fréttatilkynningu að ef um sé að ræða „faraldur örvæntingar“ séu niðurstöðurnar dæmi um afleiðingar hægs hagvaxtar og aukins ójöfnuðar í Bandaríkjunum.