Hin árlega skýrsla American Cancer association kom út að venju í byrjun janúar. Í henni eru nýjustu tölur úr faraldsfræði krabbameina raktar. Þar koma fram bæði góðar og slæmar fréttir, á heildina litið hefur dánartíðni vegna krabbameina lækkað. Raunar má segja að hún hafi lækkað dramatískt síðan dánartíðnin var hæst árið 1991, en sé dánartíðnin árið 2017 borin saman við árið 1991 hefur hún lækkað um 29%. 

Með því að rýna í tölur skýrslunnar má lesa ýmislegt um samfélagsgerð vestrænna samfélaga. Í pistlinum hér á eftir verður lauslega farið yfir helstu niðurstöður skýrslunnar og helstu ástæður þeirra. Best er þó að byrja á byrjuninni – um hvað erum við raunverulega að tala, krabbamein.

Hvað er krabbamein

Krabbamein er samheiti yfir sjúkdóma sem lýsa sér í offjölgun frumna í líkamanum. Yfirleitt myndast æxli þegar um krabbamein er að ræða, en það er þó ekki algilt þar sem offjölgun á blóðmyndandi frumum flokkast einnig undir krabbamein. 

Krabbamein er því afar víðtækt heiti yfir marga sjúkdóma, sem eiga oftast uppruna sinn í breytingum á erfðaefninu. Þessar breytingar gera það að verkum að frumurnar hætta að skynja sig sem hluta af heildinni og hegða sér sem sjálfstæðar einingar. Sýndin er sú sama í öllum líffærum en orsökin getur verið margslungin.

Æxlisgen og æxlisbæligen

Gróft má flokka flest gen sem koma við sögu í myndun krabbameina í tvennt. Annars vegar svokölluð æxlisgen, eða það sem á ensku kallast oncogenes. Æxlisgen gegna í heilbrigðum vef því hlutverki að drífa áfram frumuhringinn. Gjarnan er þeim líkt við nokkurs konar bensíngjöf í frumuhringnum. Í krabbameinum verður gjarnan galli í þessum genum sem gerir það að verkum að frumuhringurinn gengur hraðar fyrir sig en eðlilegt er og frumurnar fara að fjölga sér hraðar en tilefni er til.

Hin gerð gena sem oft eru tengd við krabbamein eða spila stóra rullu í myndun þeirra eru æxlisbæligen. Þessi gen hafa öfugt hlutverk við æxlisgen. Æxlisbæligen skrá fyrir bremsum frumurhringsins. Í heilbrigðum vef passa afurðir þessara gena uppá að frumurhringurinn stöðvist þegar við á. Þegar um krabbamein er að ræða geta breytingar á þessum genum leitt til þess að frumurhringurinn heldur áfram og frumurnar fjölga sér óeðlilega mikið. 

Rétt er að taka fram að sjaldan dugar til ein breyting í geni til að krabbamein myndist enda er sjúkdómsmyndunin fjölþætt og sjúkdómurinn flókinn.

Dánartíðnin lækkar

Hver svo sem erfðafræðilegar ástæður krabbameinsmyndunarinnar eru þá hafa krabbamein aðallega skaðleg áhrif ef æxlin ná nægjanlegri stærð til að hafa áhrif á vefinn sem þau vaxa í eða jafnvel nærliggjandi vefi. Ef krabbmein hafa náð að dreifa sér í aðra vefi, lengra í burtu er talað um að þau hafi meinvarpast og þá eru þau orðin sérstaklega erfið viðfangs.

Samkvæmt árlegri skýrslu American cancer association náði dánartíðni vegna krabbameina hæst árið 1991 þegar dánartíðnin var rúmlega 250 dauðsföll á hverja 100þúsund íbúa meðal karla en 150 dauðsföll fyrir konur. Samtals fyrir konur, karla og allar tegundir krabbameina er dánartíðni vegna þessa skæða sjúkdóms árið 2017 um 29% lægri. 

Mismunandi milli tegunda

Tíðni krabbameina og árangur við meðferð þeirra er mjög misjafn eftir tegund krabbameinsins, það er að segja í hvaða líffæri þau byrja. Einnig er algengi mismunandi krabbameina mismunandi milli kynjanna. Enn er það svo að lungnakrabbamein er algengara hjá körlum en konum og er það talið endurspegla þann mun sem mælist milli kynjanna þegar kemur að tóbaksnotkun.

Hjá konum er brjóstakrabbamein ennþá algengasta krabbmeinið, meðan algengasta krabbamein sem finnst í körlum er í blöðruhálskirtli. Þrátt fyrir það eru lungnakrabbamein þau mein sem líklegust eru til að draga fólk til dauða. Lungnakrabbamein skýra fjórðung allra dauðsfalla af völdum krabbameina, hvort sem horft er á konur eða karla.

Betri meðferð skilar árangri

Þessar tölur sem koma fram í ársskýrslunni sýna glöggt hvernig bætt meðferð hefur breytt landslaginu í faraldsfræði krabbameina. Rannsóknir á eiginleikum krabbameina hafa skilað sér í sértækari meðferð gegn ákveðnum gerðum krabbameina.

Notkun breiðvirkra krabbameinslyfja er enn til staðar og þau ásamt skurðaðgerðum til að fjarlægja meinin eru ennþá stór partur af krabbameinsmeðferðum. Sértækar meðferðir, þar sem lyfjamörk gegn ákveðnum gerðum krabbameina eru notuð hafa þó aukið líkurnar á því að hægt sé að ná niðurlögum meinanna auk þess sem minni líkur eru á að þau komi upp aftur.

Samhliða betri meðferð hafa framfarir í greiningatækni verið mjög miklar. Betri greiningatækni hefur leitt til þess að krabbamein greinast á fyrri stigum, sem þýðir að auðveldara eru að ráð við það. Skurðaðgerðir sem miða að að fjarlægja æxli sem hefur ekki náð að dreifa sér eru vænlegri til árangurs og hafa þar að auki minni áhrif á heilbrigða vefi. 

Fyrirbyggjandi aðgerðir það sem koma skal

Það er samhljóma álit þeirra fræðimanna sem standa að birtingu skýrslunnar að stór hluti þessa mikla árangurs sem hefur unnist, sér í lagi á síðastliðnum árum, í betri meðferðarúrræðum gegn krabbameinum megi rekja til lyfja sem teljast til prótín og mótefnalyfja. 

Grunnrannsóknir í krabbameinum, erfðafræði og frumulíffræði hafa skilað okkur þeim árangri að við getum þróað sérhæfð til gegn sérhæfðum sjúkdómum. Á sama tíma er þó mikilvægt að skilja hvernig hægt er að koma í veg fyrir sjúkdóma á borð við krabbamein, en ýmislegt er einmitt hægt að lesa í söguna með því að rekja faraldsfræði krabbameina aftur í tímann.

Lífshættir okkar hafa sitt að segja um heilsu okkar og þó enginn viti sína ævi fyrr en öll er getur það skipt höfuðmáli að fara vel með líkamann sinn. Frekari rannsóknir á þessu sviði munu svo vonandi færa okkur enn frekari þekkingu um hvernig er hægt að stuðla að heilbrigði og en einnig lækna þá sem verða fyrir barðinu á þessum sjúkdómi.

Greining birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.