Mynd: Shutterstock
Mynd: Shutterstock

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar virðist sem að þeir Íslendingar sem gæða sér reglulega á sölvum séu á réttri braut.

Vísindamenn frá University of Southern Denmark birtu nýverið grein í tímaritinu Phycologia um jákvæð áhrif efna sem má finna í þangi. Í rannsókninni voru karlmenn í yfirþyngd, sem að öðru leiti voru heilbrigðir, beðnir að borða brauð sem innihélt þang af tegundinni Ascophyllum nosodum. Niðurstöðurnar sýndu að með því að borða brauð sem innihélt 4% af þangi tóku mennirnir inn meira af tefjum en ef þeir borðuðu hefðbundið brauð (4,5 g meira á hver 100 g). Auk þess sýndu niðurstöðurnar að mennirnir tóku inn 16,4% minni orku í 24 tíma eftir að hafa borðað brauðið með þanginu.

Að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá háskólanum mælast vísindamennirnir til þess að fólk borði þang daglega til að auka heilnæmi máltíða auk þess að minnka áhrif offitu og fylgifiska hennar. Að sögn Ole G. Mauritsen, fyrsta höfundar greinarinnar, telur rannsóknarhópurinn mikilvægt að almenningur viti af þeim jákvæðu áhrifum sem inntaka þangs getur haft. Einnig bendir rannsóknarhópurinn á þá ábyrgð sem matvælaiðnaðurinn ber og mælir með því að að þang verði algengara sem innihaldsefni matvæla.

En hvað er það sem er svona gott við þangið? Í rannsókninni skoðuðu vísindamennirnir 35 tegundir þangs og kom í ljós að meðal innihaldsefna voru lífsnauðsynlegar amínósýrur, andoxunarefni, steinefni, snefilefni og trefjar auk fjölómettaðra fitusýra. Þar að auki getur þang nýst sem bragðefni en í því er að finna kalíum og umami sem gjarnan er nefnt fimmta bragðið. Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á að umami stuðlar að seddu og getur hjálpað fólki að stjórna fæðuinntöku.

Mouritsen telur að 5-10 grömm af þurrkuðu þangi á dag ætti að vera nóg til að fólk njóti góðs af inntökunni en mælir ekki með því að fólk leggi sér til muns hvaða þang sem er, enda eru dæmi eru um tegundir þangs sem innihalda mikið magn joðs eða arsen.