Mynd: Nutrition
Mynd: Nutrition

Er avókadó ein af þínum uppáhaldsfæðutegundum og þér finnst alveg óþolandi að finna bara of hörð eða of lin stykki í grænmetis- og ávaxtadeildinni í búðunum á Íslandi? Þá munt þú gleðjast yfir áframhaldandi lestri.

Þannig er nefnilega mál með vexti að ástralskt fyrirtæki hefur þróað aðferð til að slökkva á ensímunum í avókadóinu sem gera það brúnt og lint þegar búið er að sneiða það niður. Með því að gera ensímin óvirk er avókadó ræktendum gert mögulegt að sneiða niður avókadó sem eru í fullkomnu ástandi til að borða, pakka þeim niður og selja þannig í búðum. Forsvarsmenn fyrirtækisins segja að eftir meðhöndlun endist avókadóin í að minnsta kosti 10 daga, niðursneidd.

Vélin sem framkvæmir þessa óvirkjun á ensímunum hefur verið kölluð „avókadó tímavél“ þar sem hún stöðvar þroskun ávaxtarins og gefur neytandanum færi á að njóta hans lengur. Auðvitað heldur fyrirtækið fast utan um leyndarmálið á bak við undrið svo aðeins tíminn mun leiða í ljós hvort þessi undur eru raunveruleg, þ.e. þegar avókadóin fara að streyma á markað. Margar rannsóknir liggja þó fyrir sem styðja hugmyndina um að óvirkja ensímin með þrýstingi og hitabreytingum svo við getum verið vongóð um að hér sé raunverulegt vísindaundur á ferð.

Þó við sem neytendur gleðjumst yfir því að þurfa ekki lengur að svekkja okkur á ofþroskuðum avókadóum þá gleðst líka umhverfiselskandi hjartað okkar yfir því að með slíkri tækni er hægt að minnka sóun á avókadó allverulega. Það er gott fyrir umhverfið, bændurnar, dreifingaraðila og marga fleiri, þ.m.t. neytendur sjálfa.