Mynd: San Diego Zoo
Mynd: San Diego Zoo

Ungviði spendýra, þar með talin ungviði manna, fæðast yfirleitt með óþroskað ónæmiskerfi. Til að vernda ungviði sín gegn sýkingum fyrstu mánuðina fá ungviðin því mótefni í gegnum móðurmjólkina sem ungviðin geta notað til að koma í veg fyrir sýkingar.

Til að skoða hvernig móðurmjólkin getur veitt svo góða vörn ákvað ástralskur rannsóknarhópur við háskólann í Sydney að skoða hvaða efni var að finna í mjólk dýrsins. Til að byrja með var erfðamengi tasmaníudjöfulsins raðgreint en þá fundust sex gen sem skrá fyrir svokölluðum cathelicidin og þegar mjólkin var greind kom í ljós að þessi cathelicidin er einnig að finna þar.

Cathelicidin eru peptíð sem tilheyra náttúrulega ónæmiskerfinu, þ.e. fyrsta svari ónæmiskerfisns. Til eru nokkuð mörg slík peptíð en aðeins eitt slíkt er að finna í erfðamengi mannsins og kallast það peptíð LL-37. Í tasmaníudjöflinum finnast sex cathelicidin. Þessi peptíð gegna tvenns konar hlutverki í ónæmiskerfinu, annars vegar örva þau frumur ónæmiskerfisins til að ráðast gegn sýklum en hins vegar hafa þau sjálf bakteríudrepandi áhrif. Það er einmitt þetta síðar nefnda hlutverk peptíðanna sem vísindamenn halda að geti nýst okkur mannfólkinu.

Í rannsókninni voru bakteríudrepandi eiginleikar peptíðanna sem fundust í mjólkinni prófaðir á bakteríum og sveppum. Niðurstöðurnar lofa góðu en bæði bakteríur og sveppir virtust næm fyrir efnunum. Á meðal baktería sem voru prófaðar voru margar sýklalyfjaónæmar sem einnig voru næmar fyrir peptíðunum.

Það verða að teljast mikil gleðitíðindi því ef við getum nýtt okkur cathelicidin úr öðrum dýrum til að meðhöndla sýkingar þá verður auðvelt að ráða niðurlögum ofurbaktería. Enn sem komið er á þó eftir að skoða hvort sá möguleiki er fyrir hendi. Við bíðum því spennt eftir frekari frétta frá Ástralíu.