Mynd: Tony Alter/Flickr
Mynd: Tony Alter/Flickr

Fjöldi fólks sem glímir við offitu hefur farið hratt fjölgandi á síðastliðnum áratugum og eru offeitir einstaklingar nú orðnir fleiri á heimsvísu en of grannir einstaklingar. Þetta kemur fram í grein sem birt var í timaritinu The Lancet 2. apríl.

Að því er kemur fram í greininni voru offeitir einstaklingar 105 milljónir árið 1975 en eru í dag 641 milljón. Fjöldi offeitra karla hefur þrefaldast úr 3,2% í 10,8% en fjöldi offeitra kvenna hefur rúmlega tvöfaldast úr 6,4% í 14,9%. 1/5 offeitra einstaklingar í heiminum er að finna í sex löndum: Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada, Ástralíu, Írlandi og Nýja Sjáland.

Á meðan að þessi þróun hefur átt sér stað hefur einstaklingum í undirþyngd fækkað og er tölurnar svipaðar fyrir bæði kynin. Körlum í undirþyngd hefur fækkað um 13,8% í 8,8% en konum úr 14,6% í 9,7%.

Þó það séu vissulega góðar fréttir að einstaklingum í undirþyngd fækki á heimsvísu veldur þessi mikla fjölgun offeitra einstaklinga áhyggjum hjá sérfræðingum. Höfundar greinarinnar benda til dæmis á að í samfélögum þar sem offeitir einstaklingar eru margir séu umhverfisáhrifin mikil. Í slíkum samfélögum er neysla á bæði eldsneyti og matvælum almennt svo mikil að hún er ekki sjálfbær til lengri tíma. Auk umhverfisáhrifanna getur offita haft í för með sér ýmis heilsufarsvandamál á borð við háan blóþrýsting, sykursýki II og liðagigt.

Höfundar greinarinnar benda á að ekki megi láta offitu vandann skyggja á vanda þeirra sem glíma við undirþyngd enda mælist nær fjórðungur íbúa í Suðaustur-Asíu og fleiri en 12% kvenna og 15% karla í Mið- og Austur-Afríku í undirþyngd.

Að lokum leggur rannsóknarhópurinn til að komið verði á fót alþjóðlegum áætlunum til að vinna gegn offituvandanum.