cake-eating

Þegar heilbrigður einstaklingur er mjög svangur er ansi algengt og meira að segja eðilegt að viðkomandi velji sér súkkulaðiköku til að borða, eitthvað sem er smekkfullt af orku því líkaminn kallar á RISA skammt. Hvers vegna geta þá einstaklingar með anorexíu, sem stanslaust eru í svelti, neitað sér um allar þær kræsingar sem heilbrigðir virðast vera svo veikir fyrir?

Þegar við svörum kalli líkamans um að borða þá örvast stöðvar í heilanum sem veita okkur vellíðan, m.ö.o. við verðlaunum okkur fyrir að borða. Þessar stöðvar eru mun minna eða lítið sem ekkert virkar í einstaklingum sem kljást við anorexíu. Þetta eru niðurstöður Christina E. Wierenga í nýlega birtri rannsókn.

Með því að fylgjast með heilastarfsemi heilbrigðra kvenna annars vegar og hins vegar kvenna sem höfðu verið með anorexíu kom í ljós að heilastöðvar sem virkjast við svengd og seddu hjá heilbrigðum virkjast ekki hjá einstaklingum með anorexíu, verðlaunakerfið fer ekki í gang hjá þeim.

Þetta verðlaunakerfi veldur því að við tökum oft ekki mjög skynsamar ákvarðanir í hungurástandi. Kannast ekki flestir við að hafa farið svangir í búðina og koma heim með pokann fullan af sælgæti? Í rannsókninni kom í ljós að konur sem höfðu fengist við anorexíu höfðu betri stjórn á hugsunum sínum, þ.e.a.s. þær létu síður undan tilfinningasveiflunum sem svengdin veldur.

Þessi rannsókn sýnir enn og aftur að anorexía er alvarleg röskun á heilastarfsemi. Að auki mætti hafa þessar niðurstöður til hliðsjónar við þróun á meðferð við anorexíu en það sama gildir líka um hina hliðina á peningnum sem er offita, en hún er einnig því miður vaxandi vandamál í heiminum.