Mynd: Kevin Pezzi
Mynd: Kevin Pezzi

Matarræði í nútímasamfélagi er ofsalega flókið fyrirbæri. Mannskepnan hefur í gegnum aldirnar þróast útí náttúrunni þar sem matur er árstíðabundið fyrirbæri og því er eðlilegt að líkami okkar lagi sig að því og geymi aukabirgðir sem fituvef og búi sig undir ef harðna skyldi í dalnum. Í allsnægtarsamfélagi vesturlanda hefur þessi eiginleiki samt aukaverkun sem er því miður frekar erfið viðfangs og það er of mikil fitusöfnun sem bæði eykur álagið á stoðkerfi líkamans og ýtir undir þróun ýmissa sjúkdóma. Það er því ekki að undra að miklum tíma og peningum er eytt í að rannsaka hvaða áhrif nútímamatarræði hefur á okkur.

Nýlega birtist ein slík rannsókn í Cell. Rannsóknin var unnin á Weizmann Institute of Science og í henni var fylgst með blóðsykri 800 einstaklinga í heila viku. Á þeim tíma voru þáttakendur með nema þannig að hægt var að fylgjast með blóðsykrinum á hverjum tíma. Þátttakendur voru síðan beðnir um að halda nákvæma matardagbók ásamt því að lýsa lífsstíl sínum s.s. hversu mikinn svefn þau fengu eða hversu mikið þau hreyfðu sig.

Þegar niðurstöður úr blóðsykursmælingum og matardagbækur voru bornar saman kom í ljós að áhrif máltíða á blóðsykurinn var mjög einstaklingsbundinn og erfitt var að segja til um einhverja eina tegund matvæla sem hafði ávalt dramatísk áhrif á blóðsykur. Líklega skýringu á þessu er að finna í þarmaflórunni, en vísindahópurinn sá að breytingar urðu í þarmaflóru einstaklinga eftir því hvers konar matarræði þeir fylgdu.

Rannsóknin er hluti af verkefni sem kallast The Personalized Nutrition Project og gengur útá að hanna matarræði í samræmi við það sem hentar hverjum einstaklingi fyrir sig. Á heimasíðu verkefnisins er fólki boðið að skrá sig til að taka þátt í næstu skrefum þessara rannsókna, þar sem reynt verður að leiðbeina fólki með matarræði byggt á blóðsykursmælingum og síðan verður fylgst með því hvort einstaklingsbundið matarræði hefur raunverulega þau áhrif sem vonir standa til um. Rétt er að taka fram að rannsóknin fer fram í Ísrael svo það gæti reynst erfitt fyrir venjulegan Íslending að taka þátt.

Þessar niðurstöður gætu leitt til stórkostlegra breytinga á því hvernig við meðhöndlum sjúkdóma á borð við sykursýki týpu 2 sem og aðra sjúkdóma, sem oft hafa verið tengdir við offitu.

Hér að neðan má sjá kynningamyndband um verkefnið sem er birt á heimasíðu Weizmann Institute of Science.