tomatos

Tómatar eru stútfullir af góðum næringarefnum og því bráðhollir. Þeir gefa líka gott bragð þ.e.a.s. þegar þeir eru rétt meðhöndlaðir. Bragðefnin í tómötum eru margskonar, þar á meðal rokgjörn efni sem gefa til dæmis sætt bragð. Ný rannsókn útskýrir hvers vegna langtíma geymsla á tómötum dregur úr bragðgæðum þeirra.

Í rannsókninni er tjáning gena sem stjórna bragðefnum í tómötum skoðuð. Tómatarnir eru svo meðhöndlaðir líkt og venja er þegar geyma á mat til lengri tíma, með því að kæla þá. Þegar tómatarnir hafa verið í 4°C í átta daga hafði átt sér stað mikil breyting á tjáningu gena sem stjórnuðu bragðinu. Með öðrum orðum breyttist framleiðsla tómatanna á bragðefnum.

Það er þó ekki þar með sagt að tómatar þoli engan kulda, en þegar tjáningin var skoðuð eftir einungis þrjá daga í kæli hafði hún ekki breyst samanborið við tómata sem ekki voru kældir.

Fyrir þá sem geta ekki hugsað sér að borða tómata gæti verið sniðugt að endurhugsa þá skoðun og prófa að smakka tómata sem ekki hafa verið kældir. Það er þó ekki nóg fyrir okkur neytendur að hætta að geyma tómatana í kæli því tómatarnir fara í kæli löngu áður en við tökum þá með heim úr búðinni. Til að leysa það vandamál er kannski eina leiðin að kaupa tómatana beint frá bónda.

Það verður spennandi að vita hvort margir tómata-hatarar breyti viðhorfi sínu til þessa dásamlega grænmetis eftir að hafa prófað tómata sem ekki hafa breytt framleiðslu bragðefnanna.