cute_two_sisters

Enn og aftur kemur barátta vestrænna þjóða við aukakílóin inná borð Hvatans. Ný rannsókn var birt á dögunum sem sýnir að eldri systur eru líklegri til að þróað með sér þyngdartengd vandamál en systur þeirra sem eru yngri. Þessi rannsókn samræmist fyrri rannsóknum sem sýna sömu tilhneigingu meðal karla.

Úrtakið í rannsókninni voru um það bil 29.000 sænskar systur sem fæddust á árunum 1991-2009. Þegar systurnar voru bornar saman kom í ljós að eldri systurnar voru 29% líklegri til að vera í yfirþyngd og 40% líklegri til að þjást af offitu, samanborið við yngri systur sínar. Að auki voru eldri systurnar að meðaltali hávaxnari. Þessar niðurstöður fengust með því að meta BMI stuðul kvennanna.

Stærð systkinahópsins hafði ekki áhrif á niðurstöðurnar en leiða má líkur að því að með minnkandi systkinahópum verða hlutfallslega fleiri elstu systkini sem eru einhverra hluta vegna í meiri hættu að kljást við ofþyngd.

Þörf er á frekari rannsóknum á þessu sviði, en enn sem komið er virðist ómögulegt að segja til um hver ástæðan er fyrir þessari tilhneigingu eldri systkina. Rannsóknin sem vitnað er í hér var framkvæmd í Svíþjóð og ekki er ólíklegt að sú félagslega hegðun sem mögulega veldur þessu sé einnig til staðar meðal annarra norðurlandaþjóða.