Mynd: MedTrust
Mynd: MedTrust

Taugakerfið er eitt af mikilvægustu kerfum líkamans, í því berast boð um líkamann varðandi það sem á sér stað á hverjum degi. Með hjálp taugakerfisins skynjum við heiminn og bregðumst við honum. Hluti af taugakerfinu stjórnar hreyfingum okkar, virkt taugakerfi er t.d. forsenda þess að hægt er að skrifa þessa frétt hér inn, að við getum gengið á milli staða og að öllu leiti hreyft okkur. Stundum verður skaði á taugakerfinu, vegna sjúkdóma eða slysa, sem leiða til þess að fólk missir hreyfigetu, stundum alveg og stundum að hluta. Hvort sem skerðingin er mikil eða lítil þá hefur hún yfirleitt gríðarleg áhrif á líf fólks og hingað til hafa læknavísindin staðið nokkurn vegin varnarlaus gegn þess konar sköðum. En nú verður kannski breyting þar á.

Þann 20. janúar síðastliðinn birtist grein í The Journal of Neuroscience þar sem rannsóknarhópur við McGill University lýsir því hvernig þeim tókst að meðhöndla taugafrumur á þann hátt að þær mynduðu nýjar tengingar, m.ö.o. endurnýjuðu sig.

Til að fá frumurnar til að vaxa og mynda ný tengsl þurfti mjög nákvæma stjórnun boðefnaseitunar, sem var gert í gegnum örlitlar plastkúlur, polystyren kúlur sem taugafrumurnar eiginlega festu sig við og eltu svo. Einn lykilþáttanna í rannsókninni var að meðhöndla frumurnar einstaklega varlega og hægt. Minnsti hristingur setti frumurnar alveg útaf laginu, sem gefur til kynna að þetta ferli er rosalega viðkvæmt en á sama tíma nákvæmt.

Enn sem komið er hefur ekki verið sýnt fram á gildi rannsóknarinnar á stærri skala. Tengingarnar sem mynduðust í þessari tilteknu tilraun voru mjög stuttar og allar tilraunir voru framkvæmdar í frumuræktunum. Þó virðist vera að hópnum hafi tekist að snúa á hið óendurnýjanlega taugakerfi, sem verður vonandi til þess að mikið púður verður lagt í áframhaldandi rannsóknir sem leiða að lokum til meðferðar fyrir þá sem einhverra hluta vegna lifa með skert taugakerfi.

Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá taugafrumuna elta polystyren kúlurnar sem seita út boðefnunum, taugafruman er örmjór þráður sem virðist tengdur við kúluna.