Mynd: Microbiome
Mynd: Microbiome

Það má með sanni segja að bakteríuflóra mannsins er að fá uppreisn æru þessi misserin. Rannsóknir sýna alltaf betur og betur hvaða áhrif bakteríur hafa á líf okkar og hafa þá sýklar minnst áhrif. Á og í líkama okkar búa þúsundir bakteríutegunda og hver einstaklingur hefur einstaka flóru, en það telja vísindamenn nú að hægt sé að nýta til að uppljóstra um glæpi.

Upplýsingasöfnun og rannsóknir í þessum efnum hafa staðið yfir í fjölda ára og telja vísindamenn að mögulega séum við að komast að takmarkinu fljótlega. Í stuttu máli snýst þetta um það að taka sýni af vettvangi gæpsins, einangra erfðaefni úr sýninu og leita að geni sem heitir 16S rRNA. Þetta gen finnst í bakteríum og er notað í örverufræði til að greina á milli tegunda. Með því að raðgreina þessar DNA raðir er hægt að skilgreina hvers konar bakteríuflóra fylgir einstaklingnum sem skildi eftir sig sýnið.

Hverjir eru helstu kostir aðferðarinnar?
Bakteríurflóran er mismunandi milli allra einstaklinga og því gefa niðurstöðurnar nokkuð afgerandi niðurstöður um hver var á staðnum. Ólíkt sýnum á borð við fingraför eða DNA sýni úr einstaklingnum er mjög erfitt fyrir viðkomandi að koma í veg fyrir að sýni verði eftir. Jafnvel fötin okkar eru gegndræp fyrir bakteríum auk þess sem bakteríur losna frá andliti okkar eða þegar við tölum. Þessi aðferð er þar að auki orðin að raunhæfum möguleika vegna þeirrar einföldu ástæðu að raðgreiningartækni er alltaf að verða betri og betri um leið og hún verður ódýrari. Þetta þýðir að það er hægt að fá mjög nákvæma tegundasamsetningu byggða á 16S geninu á tiltölulega stuttum tíma fyrir tiltölulega lága upphæð. Það er því augljóst að það er auðvelt að ná slíkum sýnum og þau eru þó nokkuð áreiðanleg til að greina á milli einstaklinga.

En hverjir eru þá gallarnir?
Þó bakteríuflóra sé mismunandi milli einstaklinga þá getur hún samt sem áður verið lík með tilliti til tegundasamsetningar. Til að vera algjörlega viss um að greina á milli einstaklinga þá þarf að raðgreina meira en bara 16S genið. Þetta tiltekna gen er notað til að skilgreina milli tegunda en vitað er að miklu leyti hvaða bakteríur lifa á mannslíkamanum, hins vegar eru ekki allir með sama stofninn og breytileikinn sem gæti verið til staðar á milli einstaklinga kemur að öllum líkindum ekki fram í 16S rRNA geninu sem er eina genið sem er skoðað.

Að auki getur bakteríuflóra einstaklinga breyst með tímanum, það verður því ekki hægt að nýta þessa tækni til að leita uppi glæpamann sem framdi glæp fyrir áratug síðan. Alls kyns hlutir hafa áhrif á bakteríuflóruna okkar til dæmis matarræði, híbýlin okkar, samskipti við annað fólk og sýklalyf. Þess vegna gæti einhver sem ráðleggur að brjótast inn ákveðið að taka fyrst inn sýklalyf til að rugla rannsakendur, sem dæmi.

Þrátt fyrir vankanta er aðferðin samt sem áður góð og gild upp að ákveðnu marki, það væri til dæmis vel hægt að nota hana til að búa lögreglunni til mynd af því hvers konar manneskju er verið að leita að. Bakteríuflóran gefur alls kyns upplýsingar um einstaklinginn, á borð við kyn búsvæði og lífstíl. Til að þetta verði að veruleika þarf þó að byggja upp gagnabanka sem hægt er að bera saman við, ekki ósvipað og fingrafaragagnabanka sem lögregluyfirvöld búa yfir víðs vegar um heiminn.

Það verður áhugavert að fylgjast með hvort bakteríurnar muni taka yfir fingrafaraheim lögreglunnar, þangað til er hægt að fræðast meira um málið hér.