Mynd: National brokers of America
Mynd: National brokers of America

Það er mikilvægur hluti af daglegu lífi að þvo sér reglulega um hendurnar. Flestir, vonandi allir, þvo sér um hendurnar eftir ferðir á salernið og mjög margir þvo sér fyrir mat sem og eftir mat. Enn aðrir hafa þá reglu að þvo sér alltaf um hendurnar þegar komið er heim úr búðinni. Allir þessir handþvottar skipta máli til að hindra dreifingu baktería. Það er til dæmis mjög góð regla að þvo sér oft um hendur þegar inflúensa eða aðrar smitandi veirur eru komnar á kreik. En til að koma algjörlega í veg fyrir bakteríusmit er þá rétt að nota bakteríudrepandi sápu?

Stutta svarið er nei. Langa svarið kemur svo hér að neðan.

Þegar bakteríur eru settar í rækt með venjulegri sápu og með bakteríudrepandi sápu þá virðist lítill sem enginn munur vera á lifun þeirra. Í sömu rannsókn reyndi rannsóknarhópurinn að skilgreina hversu langan tíma bakteríurnar þyrftu í efninu til að deyja, í ljós kom að 20 sekúndna þvottur hefur lítil sem engin áhrif þar sem bakteríurnar þurfa að liggja í efninu í um það bil níu klukkustundir, það er ansi langur þvottur.

Bakteríudrepandi sápur innihalda oftast efni sem heitir triclosan sem á að drepa allar þær bakteríur sem venjuleg sápa ræður ekki við. Þetta efni, fyrir utan að virðast ekki sérlega virkt, hefur einnig verið tengt við alls kyns neikvæða þætti svo við ættum að hugsa okkur tvisvar um áður en við ákveðum að kaupa slíka sápu. Triclosan hefur meðal annars verið tengt við krabbameinsmyndun, en einnig hefur efnið verið tengt við ofnæmi hjá fólki sem og sýklalyfjaónæmi baktería.

Okkur er því óhætt að draga þá ályktun að bakteríudrepandi sápur gera meiri skaða en gagn, auk þess sem þær veita falskt öryggi fyrir þá sem þær nota.