Gervisæta eða sætuefni hefur lengi verið undir smásjánni. Til að hljóta þann heiður að vera leyfileg í augum matvælaeftirlita þurfa efni að ganga í gegnum ótal margar tilraunir sem sértaklega eru hannaðar til að sýna fram á hvort efnið hafi áhrif á fólk eða frumur þeirra.

Þar sem sætuefnin aspartam, súkralósi, sakkarín, neótam, advantam og aesúlfam-k hafa öll verið leyfð hlýtur neysla þeirra að vera örugg. Vissulega eru þessi efni ekki eitruð fyrir frumurnar okkar í því magni sem þau finnast í markaðssetum matvælum, en það er ekki endilega þar með sagt að þau hafi engin áhrif.

Ímynd sætuefnanna misgóð

Fjölmargar rannsóknir hafa farið fram þar sem verið er að skoða hvort t.d. langtímanotkun sætuefna geti til dæmis ýtt undir myndun krabbameina, örvi bólgur eða leiði til hjarta og æðasjúkdóma.

Engin afgerandi niðurstaða hefur fengist í þessi mál. Hvorki er hægt að sverta nafn sætuefnanna með “krabbameinsvaldandi” stimplinum, né hreinsa mannorð þeirra með afgerandi “engin áhrif” niðurstöðum. Í slíkum tilfellum er það yfirleitt vegna þess að efnin í því magni sem þeirra er neytt hafa hverfandi áhrif, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Sætuefni og örverur

Í rannsókn sem birtist nýverið í ritrýnda vísindaritinu Molecules reynir rannsóknarhópur við Ben-Gurion University í Negev, í Ísrael að varpa ljósi á það hvernig sætuefni hafa áhrif á bakteríur sem lifað geta í meltingarvegi okkar og umhverfi.

Í rannsókninni er notast við erfðabreytta E.coli stofna. Erfðabreytingin sem stofnarnir hafa undirgengist gerir það að verkum að þeir fara að tjá sjálflýsandi sameindir þegar bakteríurnar upplifa ákveðna streitu. Dæmi um streituvaldandi aðstæður fyrir bakteríur er þegar eitur er í umhverfinu. Tilgangur rannsóknarinnar var að mæla hvort þau sætuefni sem að framan voru talin hefðu eitrunaráhrif á bakteríurnar.

Ljómandi bakteríur í návígi við gervisætu

E.coli stofnarnir þrír sem notaðir voru við rannsóknina sýndu mjög mismunandi viðbrögð við sætuefnunum. Af þeim sex sætuefnum sem voru prófuð var aðeins eitt sem hafði eitrunaráhrif á alla þrjá stofnana, en það var súkralósi. Sakkarín kom þar næst á eftir, en áhrifa þess gætti í tveimur stofnum af þremur.

Önnur efni eins og aspartam, neótam og asesúlfam-k leiddu einungis til streituviðbragða hjá einum stofni af þremur. Sætuefnið advantam skar sig örlítið úr hópnum þar sem það var eina sætuefnið sem virtist örva vöxt bakteríanna.

Bakteríur mikilvægar lífverur.

Bakteríur er að finna alls staðar á okkur og í umhverfi okkar. Líf þeirra skiptir okkur miklu máli bæði í umhverfinu sem og í samlífi við okkur.  

Þó styrkur sætuefna virðist fara hækkandi í umhverfi okkar, sem getur samkvæmt þessum niðurstöðum verið áhyggjuefni, þá er styrkur sætuefnanna sennilega hvergi hærri en í okkar eigin meltingarfærum. Sér í lagi ef við höfum tamið okkur að nota þau mikið í fæðu, í stað sykurs.

Áhrif sætuefna á meltingarveginn.

Einhverjar rannsóknir hafa beint sjónum sínum að áhrifum sætuefnanna á örveruflóruna í meltingarvegi dýra. Slíkar rannsóknir endurspegla hvaða áhrif sætuefni geta haft á okkar eigin örveruflóru, og oft eru þau ekki jákvæð.

Niðurstöður rannsóknahópsins í Negev styrki niðurstöður þeirra rannsókna: sætuefni geta greinilega haft áhrif á bakteríur. Áhrifin eru þó mismikil eftir því hvaða stofn eða tegund um ræðir en það skekkir samkeppnishæfni bakteríanna og getur gert einhverjum stofnum kleift að verða ríkjandi tegund í vistkerfinu.

Mikilvægt samlífi manna og baktería.

Örveruflóran í líkama okkar var lengi vel talin aukahlutur, samansafn sníkjudýra sem við því miður neyðumst til að lifa með. Þetta samlífi okkar við þessa milljarða sníkjudýra sem okkur byggja er þó ekki einungis til þess gert að þjóna hagsmunum sníkjudýranna. Við mannfólkið og önnur dýr græðum einnig gríðarmikið á þessum samlífi.

Þó erfitt sé að segja til um það hversu mikil áhrif sætuefni hafa í þörmunum þegar þau hafa ferðast í gegnum sýruna og meltingarensímin í maganum eru ýmis teikn á lofti um að sætuefni séu ekki alltaf góð. Svo hér sannast því hið fornkveðna og margnotaða orðatiltæki: Allt er gott í hófi.

Greinin birtist fyrst í blaði og á vefsíðu Stundarinnar