Gluten

Glúten er prótín sem er að finna í mörgum matvælum og má þá sérstaklega nefna vörur sem innihalda hveiti. Glúten-óþol er nafn á sjúkdómi þar sem ónæmiskerfið bregst við glúteni eins og óæskilegu utanaðkomandi efni og leiðir til þess að næringarupptaka í þörmunum verður lítil sem engin. Glúten-óþol er því kannski rangnefni þar sem hér er frekar um einhvers konar ofnæmi að ræða.

Orðið glúten-óþol hefur þó einhvern veginn verið á allra vörum uppá síðkastið og margir telja sig vera með einhvers konar glúten-óþol, væntanlega er þá ekki átt við sjúkdóminn sjálfan. Glúten-óþol í þeim skilningi gæti til dæmis lýst sér í magaverkjum eða uppþembu. Einhverra hluta vegna eru þessir magaverkir oft skrifaðir á glúten-ið þó það sé alls ekki víst að það sé sökudólgurinn í málinu.

Ný rannsókn sem var birt í The British journal of nutrition sýnir að neysla á glútenlausum vörum er ekki endilega betri en neysla á vörum sem innihalda glúten, gefið að viðkomandi sé ekki með sjúkdóminn glúten-óþol. Einstaklingar sem ekki þjást af sjúkdómnum hafa engan heilsufarslegan ávinning af því að sleppa glúteni. Vörur sem innihalda glúten innihalda nefnilega sambærileg næringarefni og glútenlausar vörur. Glúten er alls ekki óhollt prótín, verði fólki illt í maganum af t.d. miklu brauð-áti þá er ekki alltaf þar með sagt að þar sé glútenið að verki.

Sú vitundarvakning sem orðið hefur á fjölbreyttari korntegundum í heiminum er samt sem áður mjög jákvæð. Það gæti reyndar reynst mikilvægt að horfa til fleiri korntegunda en hveitis. Ekki vegna þess að við þolum það illa heldur vegna þess að þegar fæða verður svona einhæf getur það haft áhrif á bakteríuflóru líkamans svo ekki sé minnst á þá hungursneyð sem gæti orðið í heiminum ef uppskerubrestur á hveiti yrði vegna bakteríusýkingar, sníkjudýra eða annarra þátta sem við ráðum ekki við.

Þannig að skilaboðin eru, glútenlausar vörur geta verið ágætar en séu þær margfalt dýrari þá er það ekki peninganna virði nema fyrir einstakling með glúten-óþol.