hiv

HIV eða human immunodeficiency virus er veira sem leggst á ónæmiskerfi þeirra sem af henni sýkjast og veldur sjúkdómnum alnæmi. HIV er gædd þeim eiginleika að hún getur verið til staðar í frumum mannslíkamans án þess að vera virk. Hvatinn birti fyrr á árinu myndband sem sýnir hvernig veiran vinnur, sem má sjá hér.

Lyf sem í dag eru notuð til að halda veirunni í skefjum koma í veg fyrir að veiran geti fjölgað sér í frumum þar sem hún er virk. Lyfin geta hins vegar ekki ráðist á veirur sem eru á óvirku formi í frumum og þess vegna þarf HIV sjúklingur alltaf að vera á lyfjum sem halda veirunni niðri, án þess að eyða henni.

Lengi hefur verið leitað að lækningu við HIV, að lyfi sem getur eytt veirunni með öllu úr líkama sjúklingsins, en án árangurs. Til að mæta þessum vanda sem fjöldi vísindahópa um allan heim hefur reynt að leysa hafa því nokkrir stærstu háskólar Bretlands tekið höndum saman. Vísindahóparnir hafa ólíkan bakgrunn og koma því með ólíkar nálganir og þekkingu að borðinu.

Hóparnir hafa nú hrint af stað klínískum rannsóknum á lyfi sem þau hafa þróað í sameiningu. Lyfinu er ætlað að virkja veiruna í þeim frumum líkamans þar sem hún er óvirk og um leið er hefðbundinni lyfjagjöf beitt, sem drepur frumur þar sem veiran er að fjölga sér. Enn sem komið er lofar tilraunin góðu, þar sem litlar aukaverkanir virðast fylgja lyfjagjöfinni, en lyfjablandan var prófuð á 50 manna hópi. Fyrsti sjúklingurinn hefur nú þegar lokið meðferð, en nokkur tími þarf að líða áður en hægt verður að mæla hvort tekist hefur að losna við veiruna með öllu.

Vísindahóparnir sendu frá sér fréttatilkynningu um rannsóknina þar sem tekið er fram að þó fyrstu niðurstöður lofi góðu verði ekki hægt að segja til um árangur lyfsins fyrr en hægt verður að mæla tilvist veirunnar í blóði sjúklinga einhverjum tíma eftir meðferð. Við verðum því að bíða til 2018 áður en við fáum svarið við því hvort lækningin við HIV sé fundin. Þá munum við vonandi líka geta lesið um rannsóknina og virkni lyfsins en enn sem komið er hefur hópurinn ekki birt neinar niðurstöður í ritrýndum tímaritum.