Mynd: The Dallas Morning News
Mynd: The Dallas Morning News

Zika veiruna þarf vart að kynna en hún veldur taugaskaða í fóstrum þeirra mæðra sem smitast af veirunni sem berst með moskítóflugum og finnst aðallega í Suður-Ameríku. Síðan áhrif veirunnar uppgötvuðust hafa vísindamenn lagt mikið kapp á að skilgreina virkni hennar og hvernig koma megi í veg fyrir þessi áhrif hennar á fóstur þar sem erfitt getur reynst að koma í veg fyrir smit. Í nýrri rannsókn sem birtist Nature Medicine kemur í ljós að til eru lyf sem geta heft áhrif veirunnar.

Í rannsókninni er unnið með taugafrumur í þrívíðri rækt, sem hermir þá eftir byggingu heilans og taugakerfisins. Vísindahópurinn vann með frumur sem vitað er að verða fyrir áhrifum frá veirunni við sýkingu, en þessar frumur eiga að byggja upp taugakerfi fóstursins við fósturþroska. Það sem gerist svo þegar sýking á sér stað er að frumurnar ná ekki að þroskast og ferðast milli vefja og deyja þess í stað.

Rannsóknarhópurinn prófaði um 6000 lyf sem þegar eru í notkun eða eru í seinni fösum lyfjaprófana á þessum frumuræktunum sem höfðu verið sýktar með zika veirunni og mátu síðan frumulifun eftir lyfjameðhöndlun. Þó nokkur lyf höfðu áhrif á framgang veirunnar, sem sást í aukinni frumulifun ræktanna. Þrjú lyf sýndu sérstaklega góð áhrif, þar sem þau virtust bæði drepa veiruna í ræktinni og hjálpa frumunum að jafna sig eftir sýkingu.

Þessi þrjú lif heita PHA-690509, veirulyf sem enn hefur ekki klárað alla fasa lyfjaprófana, emricasan, lyf sem vonir standa til að hægt verið að nota gegn lifrarbólgu C í náinni framtíð og niclosamide, lyf sem nú þegar er notað gegn sníkjudýrum í bæði mönnum og dýrum.

Næstu skref eru að prófa þessi lyf og mögulega fleiri í dýramódelum og síðan mönnum. Eftir einungis örfá ár gætum við því verið komin með lækninguna við þessari hvimleiðu veiru sem hefur nú þegar haft áhrif á líf hundruða barna.